Beint flug milli Akureyrar og Bretlands í janúar og febrúar
Á fundi Byggðarráðs Skagafjarðar í morgun var lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Markaðsstofu Norðurlands og flugklasanum Air 66N. Þar segir að Markaðsstofa Norðurlands og flugklasinn AIR 66N hafi um árabil unnið að því markmiði klasans að koma á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Ferðaskrifstofan Super Break í Bretlandi hyggist fljúga tvisvar í viku í janúar og febrúar frá Bretlandi til Akureyrar, samtals 14 flug á 7 vikum.
Ennfremur segir að mikilvægt sé að að ná fram betri dreifingu ferðamanna um landið allt og til að svo megi verða sé nauðsynlegt að byggja upp fleiri áfangastaði fyrir millilandaflug en Keflavík. Þar séu þó hindranir í veginum, m.a. sú að eldsneyti fyrir flugvélar í millilandaflugi er dýrara á Akureyri en í Keflavík. Ástæða þess er sú að öllu eldsneyti sé skipað upp í Helguvík og kostnaði við flutning á eldsneytinu sé bætt ofan á grunnverðið sem geri það að verkum að eldsneytið verði dýrara eftir því sem lengra dregur frá Helguvík.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.