Biopol vaktar Víkur fyrir Umhverfisstofnun

Mikið var um rusl sem kemur frá sjávarútvegi s.s. netakúlur, olíubrúsa og fiskikassa ásamt plastbrotum í ýmsum stærðum. Mynd: ust.is
Mikið var um rusl sem kemur frá sjávarútvegi s.s. netakúlur, olíubrúsa og fiskikassa ásamt plastbrotum í ýmsum stærðum. Mynd: ust.is

Umhverfisstofnun hefur frá árinu 2016 séð um vöktun á ströndum samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR en það er samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins sem Ísland hefur staðfest. Fyrirfram afmarkað svæði er tekið fyrir á hverri strönd og er tilgangurinn með vöktuninni að finna uppruna þess rusls sem safnast mest fyrir á svæðinu, meta magn þess yfir ákveðið tímabil og að fjarlægja það af svæðinu.

Starfsfólk Biopol á Skagaströnd hefur nú tekið að sér að standa vaktina á ströndinni Víkur á Skagaströnd fyrir Umhverfisstofnun og hefur það fengið aðstoð frá starfsmanni stofnunarinnar við fyrstu vöktunina sem fram fór í júlí. Á ströndinni fannst mikið rusl sem kemur frá sjávarútvegi s.s. netakúlur, olíubrúsar og fiskikassar ásamt plastbrotum í ýmsum stærðum.

Víkur er sjötta ströndin sem vöktuð er á Íslandi samkvæmt aðferðafræði OSPAR. Hinar eru Surtsey, Bakkavík á Seltjarnanesi, Búðavík á Snæfellsnesi, Rauðisandur og Rekavík á Hornströndum. Sameiginlegt öllum þessum ströndum er að meirihluti þess rusls sem þar finnst er plast. Strendurnar uppfylla flest þau skilyrði sem koma fram í leiðbeiningum OSPAR að teknu tilliti til aðstæðna hér við land. Þau eru að þær séu sand- eða malarfjörur og opnar fyrir hafi, að lágmarkslengd þeirra sé 100 m og að þær séu að einhverju leyti ruslagildra og aðgengilegar allt árið (þar sem við á). Einnig að auðvelt sé að fjarlægja rusl, að engar byggingar séu í fjörunni og að hreinsun fari ekki fram af öðrum aðilum.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu Umhverfisstofnunar https://ust.is/atvinnulif/haf-og-vatn/voktun-stranda/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir