Björt framtíð
Nú er liðið rétt hálft ár síðan lýðræðishátíðinni okkar lauk með kosningum til Alþingis þann 27. apríl þar sem kjósendur völdu sér nýtt þing og ríkisstjórn í landinu okkar næstu fjögur ár. Nýir vendir valdir til að sópa og taka til. Nokkuð sem ætti að kveikja eftirvæntingu um allt land. En í dag hafa læðst að mér áhyggjur. Þær kviknuðu fyrst þegar ný ríkisstjórn ákvað að skera niður tekjustofna ríkisins um milljarða.
Talað hafði verið um að forgangsraða í auðlegðargjaldi og skoða virðisauka á ferðaþjónustuna, en að taka svo hressilega af kökunni, er það skynsamlegt miðað við stöðu ríkissjóðs? Þá var aðildarferlið að ESB stöðvað og án þess að kalla þjóðina að því verki. Með því var striki slegið yfir alla IPA-vinnuna sem mun hafa miklar neikvæðar afleiðingar í för með sér m.a. í þeim byggðarlögum NV-kjördæmis þar sem ótal framsækin verkefni munu væntanlega festast í bið eða falla niður.
Fjárlagafrumvarpið stefnir að hallalausum fjárlögum sem er mjög gott mál. Því meira sem ég les frumvarpið, því meira efast ég þó um að núllinu verði náð. Óvissutekjur eru þar allnokkrar og ég lýsi verulegum áhyggjum af frekari flötum niðurskurði. Það einfaldlega virkar ekki miðað við raunverulega stöðu, enda komið inn úr kjarnanum t.d. í heilbrigðis- og menntakerfi.
Sérstaklega kom á óvart að sjá dregið úr niðurgreiðslum á raforkuverði og til landflutninga. Ég eiginlega neita að trúa því að samfélagsleg ábyrgð landsmanna taki ekki til þess að reyna að jafna aðstöðu Íslendinga þegar kemur að þessum málaflokkum. Ákveðin skref hafa verið tekin til að rétta við stöðu okkar sem búum utan höfuðborgarsvæðisins og á köldum svæðum en nú virðist stefnan vera að auka þann ójöfnuð á ný. Verulega smár hluti af heildarfjármagni í fjárlögum, en býsna stór fyrir vasa einstaklinga og fyrirtækja á þessum stöðum.
Svo eru það hagræðingartillögurnar 111 sem miðast að því að draga úr ríkisrekstri. Margar þeirra hljóma vel, en þó hef ég ákveðnar áhyggjur af því að heldur sé gárað yfirborðið, en ekki kíkt undir. Fullyrðingar um að sameiningar einar og sér muni draga úr fjárútlátum þarf að skoða gaumgæfilega og þar verður að koma inn faglegt sjónarhorn. Frasinn um að skera niður og auka þjónustu er verulega hæpinn og þarfnast eiginlega útskýringar. Ekki kannski síst þegar kostnað við ríkisstjórn virðist eiga að auka um 23%.
Sérstaklega hef ég þó áhyggjur af því fyrir mitt kjördæmi að sjá til þess tekið að fækka þurfi háskólum og framhaldsskólum. Í kjördæminu starfa þrír háskólar og tvö háskólasetur. Á síðustu 10 árum hafa verið reistir tveir nýir framhaldsskólar auk þess sem fimm ný „framhaldsskólaútibú“ hafa risið. Ég átta mig vissulega á því að skoða þarf menntakerfið gaumgæfilega og vel má vera að þar felist hagræðingarmöguleikar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem stutt er á milli stofnana, en ég óttast það að frekar sé horft til annarra svæða. Þessir nýju skólar og setur hafa gjörbreytt aðstöðu fólks í námunda við þá og allur niðurskurður ríkisins gagnvart þeim er ávísun á að flytja kostnað yfir á forráðamenn barna þessara staða.
Þess vegna set ég hér línur á blað. Því ég vil ekki sitja einn uppi með þennan ugg. Í okkar kjördæmi eru sex þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum. Við eigum utanríkisráðherrann, forseta Alþingis og aðstoðarmann forsætisráðherra sem jafnframt stendur fyrir hagræðingarhópnum.
Ég skora á þá að finna á ný þær áherslur sem þeir töluðu um á ferðum sínum fyrir kosningar og rifji upp hvað það var, og er, sem fólkið í kjördæminu þeirra talaði fyrir. Það er ennþá möguleiki að endurskoða tekjustofna í stað þess að sveifla niðurskurðarhnífnum af krafti og það er full ástæða til þess að spyrja sig reglulega hvað styður best við bak samfélaganna okkar hér.
Starf þingmannsins er göfugt starf. Það felst að mínu mati 80% í því taka þátt í samtali við sína þjóð og hin 20% eiga að miða að því að vinna úr þeim óskum. Ekki bara fyrir kosningar, heldur alltaf. Því lofaði Björt Framtíð og hefur fylgt því eftir í störfum sínum. Fjölgum endilega í því liði!
Magnús Þór Jónsson
Í stjórn Bjartrar Framtíðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.