Bókasafnsdagurinn er í dag

Bókasafnsdagurinn er haldinn hátíðlegur í dag, þann 8. september, á alþjóðlegum degi læsis. Það var árið 1965 sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu daginn að aðþjóðadegi læsis og þennan dag er fólk um allan heim hvatt til að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða nota tungumálið á einhvern annan hátt til ánægjulegra samskipta.

Í yfirlýsingu Unesco um almenningsbókasöfn segir meðal annars. „Almenningsbókasafn er hlið til þekkingar á hverjum stað. Það skapar frumskilyrði til ævimenntunar, sjálfstæðrar ákvarðanatöku og menningarþroska einstaklinga og þjóðfélagshópa. Yfirlýsing þessi staðfestir trú UNESCO á almenningsbókasafni sem virku tæki til menntunar, menningar og upplýsinga og sem meginafli til að rækta frið og andlega velferð í hugum allra manna.“

Markmið bókasafnsdagsins er tvíþætt; annars vegar að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í lýðræðissamfélagi og hins vegar að vera hátíðisdagur starfsmanna safnanna. Í tilefni dagsins bjóða bókasöfn víðsvegar um landið upp á sérstaka dagskrá. Feyki er ekki kunnugt um að neinar sérstakar uppákomur séu á söfnunum á Norðurlandi vestra í dag en á Hérðasbókasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki er boðið upp á kaffi og kleinur í tilefni dagsins ásamt því að valdar bækur úr bókakosti safnsins eru gefnar þeim sem það vilja þiggja. Þar er opið til kl. 18:00 í dag, eins og alla aðra virka daga.

En hvort sem þar er einhver dagskrá eða ekki er alltaf notalegt að bregða sér á bókasafnið og glugga í góða bók, sér til fróðleiks og ánægju.

Fleiri fréttir