Borðeyringar þurfa að sjóða neysluvatn

Frá Borðeyri. Mynd:FE
Frá Borðeyri. Mynd:FE

Íbúar og aðrir þeir sem ætla að fá sér vatnssopa á Borðeyri hafa þurft að sjóða allt neysluvatn síðan í byrjun júnímánaðar. Ástæða þess er sú að í leysingum í vor blandaðist yfirborðsvatn saman við neysluvatn og saurgerlar, eða e.coli- og kólígerlar, mælast í vatninu. Frá þessu var greint í fréttum RÚV  í gær.

Vatnsveitukerfið á Borðeyri var endurnýjað árið 2010 og ekki hafa komið þar upp vandamál með neysluvatn síðan þá. Það var svo þann 4. júní síðastliðinn sem kvörtun barst vegna óvenjulegs litar á vatninu. Niðurstöður sýnatöku leiddu í ljós að vatnið væri ekki hæft til drykkjar. „Málið var tekið mjög alvarlega og strax farið í lagfæringar. Við fundum stað þar sem talið var að yfirborðsvatnið hafi blandast neysluvatninu,“ sagði Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, í samtali við Ríkisútvarpið í gær.

Þeim tilmælum var beint til fólks að sjóða allt neysluvatn þar til sýni yrði tekið næst. Nú hefur komið í ljós að enn eru kólígerlar í vatninu og segir Guðný Hrund því ljóst að yfirborðsvatn hafi komist í neysluvatnið víðar en talið hafi verið fyrr í sumar. Reynt sé að komast sem fyrst fyrir vandræðin en þangað til þurfi fólk að sjóða allt neysluvatn. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir