Var á þriðja ári þegar hann heyrði Here Comes the Sun / EINAR ÞORVALDS

Einar Þorvaldsson býr á Hofsósi en kennir tónlist við Tónlistarskóla Skagafjarðar. Einar er fæddur árið 1966, sonur Huldu Þórðardóttur og Þorvalds Þórðarsonar sem bæði eru ættuð af Snæfellsnesi. - Ég er uppalinn í Kópavogi (gott að búa í Kópavogi) en í þá daga var Kópavogur einskonar bær í sveit og t.d. lítil sem engin byggð í Fossvogsdalnum fyrir utan sveitabýli náttúrulega, segir Einar.

Hljóðfærið hans Einars er gítar og spilaði hann meðal annars með hljómsveitinni Sixties sem fór sveitaballarúntinn hér í denn. Aðspurður um helstu tónlistarafrek svarar Einar þó: - Að vera tónlistarkennari og fá að vinna með ungu og upprennandi tónlistarfólki í Firðinum.

Uppáhalds tónlistartímabil? -Ég er nú svo gamaldags að allt sem er tengt hliðrænni tækni ásamt lömpum á við mig.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Það er nú yfirleitt eitthvað sem tengist starfinu og í augnablikinu er ég, ásamt Stéfáni Gíslasyni, að skoða og velja tónlist við væntanlegt skemmtikvöld Leikfélags Hofsóss, Höfðaborgar og Sönglagasveitarinnar sem verður haldið um páskana í félagheimilinu Höfðaborg.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? -Eagles, Carlos Santana, David Bowie, Neil Young og Bítlarnir er það sem kemur upp í hugann en eldri systkini mín sáu um mötunina!

Hver var fyrsta platan? -Ég held að það hafi verið einhver plata með pönk/surfinsveitinni Ramones.

Hvaða græjur varstu þá með? -Sambyggðar Crown deluxe!

Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? -Þetta er nú tengt minni fyrstu bernskuminningu og ég man það eins og gerst hefði í gær. Ætli ég hafi ekki verið á þriðja ári þegar ég heyrði í útvarpinu lagið Here Comes the Sun með Bítlunum og hef ekki náð mér eftir það sem betur fer.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? -Það er engin tónlist sem nær þeim hæðum!

Uppáhalds Júróvisjónlagið? -Mörg góð til en ég á nú erfitt með að benda eitthvað eitt sem sker sig úr.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Ef svo ólíklega vildi til að ég héldi partý og fengi að ráða tónlistinni þá yrði ég fljótur að tæma kofann svona alveg óvart!

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Dirrindí (Lóusöng)

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Það vill nú svo til að ég hef aldrei komið í Hörpuna og ég væri alveg til til í að sjá og heyra Arethu Franklin ásamt stórsveit. Ég tæki Pál Elí son minn með mér.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? -Mig hefur aldrei dreymt um að vera einhver annnar en ég er. Kannski er það aðalmartröðin!?

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Þegar stórt er spurt er oft erfitt um svör en ég held að það sem grípur mann á viðkvæmum  mótunartíma sé það sem fylgi manni langt frammeftir, burtséð frá „gæðum“ tónlistarinnar. Það er öll tónlist góð.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? -Þetta er einnig tengt starfinu og ef ég er að hlusta á eitthvað t.d. vegna samspils nemenda þá er það fljótt að komast á listann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir