Breytingar á Vatnsnesvegi fyrirhugaðar
Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra 14. desember sl. var samþykkt að leita umsagna og kynna skipulags-og matslýsingu fyrir minni háttar breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra vegna breyttrar legu Vatnsnesvegar, nýs brúarstæðis um Tjarnará og ný efnistökusvæði.
Núverandi vegur er einbreiður malarvegur sem er verulega farinn að láta á sjá. Framkvæmdir þær sem um ræðir fela í sér breytta veglínu á um 700 metra kafla við bæinn Tjörn á Vatnsnesi og er vegaframkvæmdin 1,8 km í heildina, að hluta til í sama vegstæði. Í breytingunni felst einnig nýtt brúarstæði yfir Tjarnará þar sem tekin er af hættuleg beygja yfir ána, ásamt nýjum efnistökusvæðum.
Í Skipulags- og matslýsingu segir: „Umferð um Vatnsnesveg hefur aukist verulega á síðustu árum með auknum fjölda ferðamanna sem fara um Vatnsnesið til náttúruskoðunar og útivistar. Ef horft er til breytinga sl. 10 ára þá var árið 2007 árdagsumferð (ÁDU) um Vatnsnesveg, á talningastöðinni frá Hvammstanga og norður Vatnsnesið, 1188 bílar á sólarhring og sumardagsumferð (SDU) 1953 bílar. Árið 2016 var umferðin komin í 1637 bílar á sólarhring (ÁDU) og sumardagsumferð (SDU) 2616 bílar."
Er íbúum og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar við skipulags-og matslýsinguna. Skal þeim skilað skriflega í ráðhúsið, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga eða á netfangið skrifstofa@hunathing.is“ í síðasta lagi 25. janúar 2018.
Skipulags-og matslýsingin er sett fram sem greinagerð og er hún til sýnis í Ráðhúsinu en hana má einnig nálgast hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.