Byggðastofnun tekur við eftirliti með póstþjónustu

Samkvæmt heimildum Feykis má fljótlega búast við auglýsingu frá Byggðastofnun um tvö ný og sérhæfð störf við nýtt svið sem sjá á um eftirlit með póstþjónustu. Mynd: PF.
Samkvæmt heimildum Feykis má fljótlega búast við auglýsingu frá Byggðastofnun um tvö ný og sérhæfð störf við nýtt svið sem sjá á um eftirlit með póstþjónustu. Mynd: PF.

Alþingi samþykkti á dögunum breytingar á lögum til að færa eftirlit með póstþjónustu til Byggðastofnunar með það að markmiði að tryggja skilvirka þjónustu um allt land. Byggðastofnun tekur formlega við málaflokknum 1. nóvember nk.

„Stofnanir hins opinbera verða að endurspegla þarfir samfélagsins á hverjum tíma. Það er tímabært að efla starfsemi stofnunar á sviði fjarskipta til að mæta gríðarlega hröðum umskiptum í heimi fjarskipta og upplýsingatækni. Þetta ætlum við að gera á grunni þess öfluga starfs sem unnið hefur verið í Póst- og fjarskiptastofnun,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í frétt á heimasíðu stjórnarráðsins.

„Við teljum einnig mikilvægt að efla stuðning við póstmálin við breyttar aðstæður. Mikil tækifæri felast í því að færa verkefnin til Byggðastofnunar en þannig má tryggja skilvirka framkvæmd og stefnumótun á sviði póstmála og samhæfa við byggðasjónarmið. Til lengri tíma felur breytingin sömuleiðis í sér tækifæri til að dreifa opinberum störfum um landið,“ segir Sigurður Ingi ennfremur.

Tvö sérhæfð störf á Sauðárkróki
„Við greiningu á verkefnum Póst- og fjarskiptastofnunar og í ljósi stórtækra breytinga í samfélaginu síðustu áratugi var ákveðið að flytja eftirlit með póstmálum til Byggðastofnunar. Megintilgangurinn er að stuðla að skilvirkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt. Póstþjónusta gegnir enn mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulíf og í vefverslun.

Byggðastofnun gefst tækifæri til að móta stjórnsýslu póstþjónustu í takt við ný lög um póstþjónustu sem tóku í upphafi árs 2020. Sem fyrr segir mun Byggðastofnun taka við málaflokknum 1. nóvember nk.,“ segir á stjornarradid.is

Í greinargerð með lagafrumvarpinu segir að eitt af hlutverkum ráðuneytisins og Byggðastofnunar vegna tilfærslunnar verði að vinna að því að skoða tækifæri til einföldunar á lagaumhverfi póstmála, þ.m.t. að skoða fýsileika þess að færa þann hluta póstmála sem varðar samkeppniseftirlit til Samkeppniseftirlitsins.

Störfum verður ekki fækkað vegna þessara breytingar, samkvæmt frétt stjórnarráðsins, og tilfærsla verkefna verður unnin í náinni samvinnu stofnananna tveggja til að tryggja samfellu í þjónustu og varðveita þekkingu í málaflokknum.

Ekki náðist í Aðalstein Þorsteinsson forstjóra Byggðastofnunar við vinnslu fréttarinnar en samkvæmt heimildum Feykis má fljótlega búast við auglýsingu frá stofnuninni um tvö ný og sérhæfð störf sem staðsett verða á Sauðárkróki.

Þá samþykkti Alþingi einnig stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga um heildarlög um Fjarskiptastofu, sem taka mun við hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar og flestum verkefnum hennar. Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir