Byltingarkenndur hugbúnaður fyrir lesblinda

Nemendur Árskóla á Sauðárkróki sem eiga við lesblindu að glíma eða eiga í erfiðleikum með að lesa, skrifa eða stafa orð, hafa tekið tæknina í sínar hendur með hjálp Easy Tutor hugbúnaði sem gerir þeim kleift að láta tölvuna lesa fyrir sig og aðstoða við að stafsetja rétt.

Lögð hefur verið áhersla á það í vetur að kynna þennan hugbúnað fyrir nemendum og kenna þeim að nota tölvuna meira við námið. Hugbúnaðurinn er gjarnan notaður samhliða verkefnabókum frá Námsgagnastofnun á pdf formi þar sem nemendur geta látið Easy Tutor lesa fyrir sig fyrirmæli og þeir síðan skrifað inn í verkefnabækurnar í tölvunni. Einnig er Easy Tutor notað með ritvinnslu þar sem forritið les jafn óðum það sem nemendur skrifa auk þess sem  hægt er að láta lesa allt yfir í lokin.

Árskóli hafði fjárfest í fimm leyfum að hugbúnaðinum sem hafa verið mjög umsetin  af nemendum og færri fengið að njóta en viljað en hugbúnaður þessi er mjög dýr.

Foreldrafélag Árskóla lét þá til sín taka og í samráði við stjórnendur skólans var fjárfest í ótakmörkuðu leyfi að hugbúnaðinum sem gerir það að verkum að allir nemendur grunnskólanna í Skagafirði geta notað hann í sínu námi. Að kaupunum kom einnig foreldrafélag Varmahlíðarskóla.

Að sögn Margrétar Bjarkar Arnardóttur náms- og starfsráðgjafa Árskóla er um mjög rausnarlega gjöf að ræða sem ber að þakka af heilum hug.

-Auk þess að öllum nemendum grunnskólanna í Skagafirði gefst nú kostur á að nota þennan hugbúnað í skólunum geta foreldrar óskað eftir því að börnin fái hugbúnaðinn inn í einkatölvur sínar til að nota heima. Tölvuumsjónarmaður Sveitarfélagsins mun aðstoða við uppsetninguna, segir Margrét Björk en hún veitir allar upplýsingar um hugbúnaðinn og hvernig nýta megi hann í námi.

Í kvöld kl. 20 verður haldinn aðalfundur Foreldrafélags Árskóla í húsnæði skólans við Skagfirðingabraut og verða allar upplýsingar veittar þar um hugbúnaðinn sem er að margra mati bylting fyrir lesblinda.

Nánari upplýsingar HÉR

Fleiri fréttir