Líney og Svavar Knútur með fyrirlestur um félagslega einangrun

Líney og Svavar Knútur. MYND AF SKAGAFJÖRÐUR.IS
Líney og Svavar Knútur. MYND AF SKAGAFJÖRÐUR.IS

Sveitarfélagið býður íbúum Skagafjarðar á áhugaverðan fyrirlestur föstudaginn 30. janúar kl. 17:00 í Húsi Frítímans á Sauðárkróki en þá mæta Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur og Svavar Knútur tónlistarmaður og fjalla um félagslega einangrun. Auk þess munu þau taka samtal við fundargesti um bæði þær áskoranir og möguleika sem finnast í samfélaginu í Skagafirði.

„Félagsleg einangrun er vaxandi lýðheilsuvandi um allan heim og hefur m.a. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) skilgreint hana sem lýðheilsuvá á pari við ofneyslu áfengis og tóbaks, offitu og fleira. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið fól Líneyju og Svavari Knúti að leiða vitundarvakningu um þennan vanda árið 2024 og er þessi fræðslufundur hluti af því verkefni.

Í fyrirlestri sínum fara tvímenningarnir yfir helstu einkenni félagslegrar einangrunar, þau áhrif sem hún hefur á samfélög okkar og hvað við sem einstaklingar og nærsamfélag getum gert til að sporna við þessari þróun og jafnvel snúa henni við. Þau munu mögulega deila fróðleik sem hefur rekið á fjörur þeirra víða um land og jafnvel verður gítarinn með í för til að ljúka fundinum með smá upplyftingu.

Félagsleg einangrun snertir fólk í öllum aldurs- og samfélagshópum og er því brýnt að samfélagið allt taki höndum saman til að vinna á þessari nýju ógn. Því eru öll velkomin á fyrirlesturinn og þær umræður sem vonandi skapast í kjölfarið.

Viðburðurinn er opinn öllum og aðgangur ókeypis. Sveitarfélagið hvetur sérstaklega einstaklinga 60 ára og eldri, fjölskyldur þeirra, vini og aðstandendur til að mæta, hlusta og taka þátt í umræðunni,“ segir í tilkynningu á vef Skagafjarðar.

Fleiri fréttir