„Hey, sjáið þið köttinn í glugganum!?“

Kristjana Ýr og Mosi. AÐSEND MYND
Kristjana Ýr og Mosi. AÐSEND MYND

Kristjana Ýr Feykisdóttir, sem býr á Víðimel í Varmahlíð, á eina kisulóru sem heitir Mosi og er níu ára. Margir kannast eflaust við Mosa á Sauðárkróki frá því að Kristjana bjó þar því hann var duglegur að lenda í ævintýrum sem enduðu yfirleitt alltaf vel. 

Hvernig eignaðist þú Mosa? „Það komu kettlingar í sveitinni hjá ömmu og afa, þá er ég 4-5 ára. Mamma og pabbi leyfðu mér að velja mér einn og er hann fyrsta gæludýrið mitt.“

Hvað er skemmtilegast við Mosa? „Hann er mjög góður og hefur aldrei klórað þó ég dröslaðist með hann þegar ég var lítil svo kemur hann alltaf með mér að sofa.“

Hvað er erfiðast? „Þegar hann vill athygli og ég er upptekin.“

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Mosa? „Þegar við bjuggum á Sauðárkróki og Mosi var lítill fór hann alltaf til að fá klapp frá fólki. Mamma þurfti oft að ná í hann í Skaffó, N1, Hús frítímans og fleiri staði þar sem hann var að reyna að komast inn. Hann átti það einnig til að kíkja á leikskólann á krakkana þar og hefur eflaust vakið mikla lukku þar. En Mosi hefur týnst tvisvar í nokkra daga. Í bæði skiptin fundum við hann fyrir slysni inni í bílskúr hjá fólki sem við þekktum ekki neitt. Fyrra skiptið sem hann hvarf vorum við búin að vera að leita og leita ásamt því að auglýsa eftir honum. Mamma fór svo í heimsókn til vinkonu sinnar og stendur úti í garðinum hennar þegar hún heyrir skringilegt mjálm koma úr bílskúrnum í næsta húsi. Þær fóru að athuga málið og þá var það Mosi innilokaður. Þá voru nágrannarnir í Reykjavík og enginn aukalykill á Króknum. Mamma og vinkona hennar náðu að taka hurðina úr svo það var hægt að bjarga Mosa. Í seinna skiptið var Mosi búinn að vera týndur í tíu daga. Við vorum aftur búin að auglýsa og leita en enginn hafði séð Mosa. Dag einn koma tveir vinir Helga, stóra bróður míns, að spyrja eftir honum. Hann átti að laga til í herberginu sínu en mamma fékk gesti svo hún ákvað að leyfa honum að fara út með þeim. Þeir gengu út götuna og eru að spjalla þegar einn bendir á hús í götunni og segir þeim að hann hafi búið þarna þegar hann var lítill. Þeir ákváðu að lauma sér inn í garðinn og skoða hann en þegar þeir koma þar inn segir einn vinur Helga: „Hey, sjáið þið köttinn í glugganum!?“ Þá sáu þeir köttinn í bílskúrsglugganum þar sem allir gluggarnir snúa inn í garðinn. „Þetta er Mosi,“ segir Helgi. Þeir náðu svo að opna glugga og komu heim með Mosa en hann var þá örugglega búinn að vera þarna í ágætan tíma því hann var orðinn mjög mjór og hás en við hugsuðum vel um hann og hann náði fyrri heilsu,“ segir Kristjana Ýr að lokum.


Feykir þakkar Kristjönu kærlega fyrir að svara þættinum Ég og gæludýrið mitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir