Dagsferð í Austur - Húnavatnssýslu

Blaðamaður Feykis hafði samband við upplýsingarmiðstöðvarnar á Norðurlandi vestra og fékk upplýsingar um skemmtilegar dagsferðir um svæðið. Þórdís Rúnarsdóttir ferðamálafulltrúi og umsjónarmaður upplýsingamiðstöðvarinnar í Austur - Húnavatnssýslu leggur til eftirfarandi dagsferð:

Úrval gististaða í Austur Húnavatnssýslu er fjölbreytt og finnast hótel, gistiheimili, herbergi, íbúðir og hús víða. Í þessari tillögu að dagsferð er gert ráð fyrir að upphafspunktur sé Blönduós en getur þó í raun verið hvar sem er á þessari leið.

Ferðalagið er um 250 km en erfitt er að segja til um ferðatíma þar sem hann ræðst af því hversu lengi ferðamenn stoppa á hverjum stað. Farið verður um sýsluna nánast eins og hún leggur sig og er fyrsti áfangastaður Þingeyrar þar sem finna má eina merkustu kirkju landsins, Þingeyrarkirju. Þaðan er haldið inn Vatnsdal með viðkomu á Þrístöpum einum af sögufrægustu stöðum sýslunnar. Í Vatnsdalinn er ferðalöngum bent á að fara inn dalinn vestan megin til að hámarka upplifun náttúrufegurðarinnar sem þar er að finna. Lagt er til að stoppa í Þórdísarlundi og einnig við Kattaraugað sem er tjörn og fljóta á henni tveir hólmar sem reka undan vindi, í botninum er lindarauga sem glittir á þegar logn er og bjart.

Eftir akstur um Vatnsdal er haldið upp á þjóðveginn á ný og þaðan uppá Húnavelli og niður að Svínvetningabraut um Blönduós að Neðribyggðarvegi þar sem farið væri niður í Selvík sem er í landi Bakkakots en náttúruupplifunin þar er einstök, útsýnið stórkostlegt og börn hafa einstaklega gaman að koma þar í fjöruna.

Haldið er eftir það til Skagastrandar þar sem lagt er til að stoppað sé í Spákonuhofi þar sem er að finna sýningu um Þórdísi spákonu, fyrsta nafngreinda Skagstrendinginn en þar ýmsan fróðleik að finna ásamt því að hægt er að láta spá fyrir sér.

Frá Skagaströnd er haldið eftir vegi 745 fyrir Skagann en þar er haldið út að Kálfshamarsvík á norðanverðum Skaga. Viti stendur á Kálfshamarsnesi og allt í kring eru sjávarhamrar formaðir stuðlabergi þar sem einnig er hægt að ganga að Króksbjargi þar sem Fossá fellur fram af björgunum til sjávar. Ekið er fyrir Skagann og þaðan eftir Þverárfjallsveg í átt að Blönduósi.

Á Blönduósi er tilvalið að fara út í Hrútey sem liggur í miðri jökulánni Blöndu en eyjan var friðuð árið 1975, eyjan er þó lokuð allri umferð frá 20.apríl til 20.júní vegna fuglavarps. Hægt er að skella sér á bak hjá Hestaleigunni Galsa eða kíkja jafnvel á Heimilisiðnaðarsafnið en sumarsýningin að þessu sinni ber heitið Foldarskart og er unnin af Louise Harris og samanstendur hún af þæfðum myndum sem unnar eru úr íslenskri ull. Eftir langan dag er síðan kjörið að skella sér í sund og heitu pottana í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi.

Mikilvægt er að hafa í huga þegar lagt er af stað í ferðalag að vera vel búin nesti og fatnaði þar sem á einum degi getur nauðsynlegur fatnaður verið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir