Deiliskipulag fyrir Kolugljúfur
Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur auglýst tillögu að deiliskipulagi fyrir Kolugljúfur í Víðidal og aðliggjandi umhverfi. Skipulagssvæðið er um 7,8 ha að stærð og tilheyrir tveimur jörðum, Bakka að vestan en Kolugili að austan.
Kolugljúfur er 1-2 km langt gljúfur í Víðidalsá þar sem áin rennur í stórbrotnu gljúfri sem er á annan kílómeter að lengd og allt að 40-50 metra djúpt. Áin fellur í Kolugljúfur í tveimur fossum er nefnast Kolufossar og eru kenndir við tröllkonuna Kolu. Kolugljúfur er á C-hluta náttúruminjaskrár, þ.e. náttúruminjar sem ástæða þykir til að vernda með einhverjum hætti.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir svo: „Gilið er ekki afar breitt þó það muni ófært flestum mönnum nú yfir að stökkva, en fyrir vestan Víðidalsá að vestanverðu í gljúfrunum er enn kallað Kolusæng; það er sylla ein í vestra gljúfrinu nokkuð lægri en gilbrúnin og standa upp háir hamrastallar að framanverðu á syllunni til beggja hliða, en lægð er nokkur í milli hamrastallanna. Þeir stallar segja menn að séu bríkurnar á rúminu, en þar sem syllan er lægst um miðjuna seildist Kola ofan úr rúminu á morgna er hún vaknaði, ofan í kerið undir fossinum og tók þar laxa og át á fastandi maga. Skammt frá Kolusæng er hola mikil í bergið að vestan, það er kallaður Koluketill. Átti hún að hafa soðið í honum laxinn sem hún veiddi í kerinu.“
Markmið með fyrirhuguðu deiliskipulagi er að bæta aðgengi, öryggi, upplýsingar og umferð ferðamanna um skipulagssvæðið. Umferð um svæðið hefur aukist mikið undanfarin ár og er talin mikil slysahætta við gljúfrin þar sem engin handrið eða önnur öryggismannvirki eru til staðar og sýna ferðamenn þar mismikla fyrirhyggju. Gert er ráð fyrir þjónustuhúsi við rúmgott bílastæði og þægilegum göngustígum ásamt fimm útsýnispöllum og tveimur áningarstöðum þar sem verði borð og bekkir og upplýsingar um svæðið. Einnig er gert ráð fyrir göngubrú samhliða núverandi akstursbrú.
Tillöguuppdráttur ásamt fornleifaskýrslu mun liggja fram í Ráðhúsi Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga, einnig hér frá 6. júní – 18. júlí 2017.
Skriflegar athugasemdir og ábendingar við deiliskipulagstillöguna skulu berast í síðasta lagi 18. júlí 2017, til skrifstofu Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga eða á netfangið: skrifstofa@hunathing.is þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.