Undir áhrifum The Tallest Man On Earth / JÚLÍUS RÓBERTS

Júlíus á tónleikum með Ásgeiri Trausta í Sauðárkrókskirkju. MYND: ÓAB
Júlíus á tónleikum með Ásgeiri Trausta í Sauðárkrókskirkju. MYND: ÓAB

Júlíus Aðalsteinn Róbertsson hefur heldur betur þvælst um heiminn síðustu ár með gítarinn að vopni í slagtogi með félaga sínum, Ásgeiri Trausta. Júlíus fæddist árið 1986, sonur Hafdísar Brynju Þorsteinsdóttur og Róberts Júlíussonar, ólst upp og bjó í Hrútafirði í Húnaþingi vestra allt þar til sumarið 2012. Hann er nú búsettur í „Reykjavík fyrir sunnan“ eins og hann segir sjálfur.

„Mitt aðalhljóðfæri er gítar. Kann eitthvað á píanó, aðeins meira á bassa en þótti hinsvegar efnilegur trompetleikari á yngri árum, mætti alveg dusta rykið af alskonar,“ segir Júlíus. Spuður um helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann: „Hef mikið spilað opinberlega og samið texta fyrir Ásgeir Trausta Einarsson frá því hann kom fram á sjónarsviðið 2012 og ferðast nokkra hringi í kringum hnöttinn. Dunduðum við það í einhverja daga á einhverjum túrnum að telja saman og skrásetja alla tónleika sem Ásgeir projectið hefur spilað frá upphafi og ef COVID-19 hefði ekki skollið á hefði Ásgeir bandið spilað tónleika nr. 500 þann 14. maí síðastliðinn. Þannig það hefur ýmislegt verið brallað þar. Annars þykir mér líka voðalega vænt um alskonar opinberar uppákomur og skemmtanir sem ég hef fengið að taka þátt í á síðustu árum í heimasveit.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Crazy Crazy Nights með Kiss. Búinn að vera með það fast á heilanum ON og OFF í nokkrar vikur.

Uppáhalds tónlistartímabil? Veit það ekki alveg en síðustu misseri hef ég mikið verið að stunda útihlaup með headphone á hausnum og hefur ´90 rokk og metall orðið mikið fyrir valinu. Það er voðalega misjafnt hvað ég fíla hverju sinni.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Hef soldið verið að skoða Auður (Auðunn Lúthersson) og GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir) síðustu misseri, skemmtilegt stöff.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var mikið um folk og country tónlist svona þegar ég fer að pæla í því. Bubbi Morthens, KK, Hörður Torfason, Johnny Cash, Willie Nelson, Kris Kristofferson, Bob Dylan, svona það helsta.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Minnir að það hafi verið Follow the Leader með Korn.

Hvaða græjur varstu þá með? Það var samtíningur af einhverjum hátölurum, Technics magnara og ferðageislaspilara sem var ekki með hristivörn. Hágæða ghetto rig.

Hvað var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Mýrdalssandur með hljómsveitinni GCD. Myndbandið var mesta rokk sem ég hafði séð á þeim tíma, vasaklútar, gallajakkar og leður.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Lagið Aðfangadagskvöld í flutningi Helgu Möller. Hef ekkert á móti henni en lagið gerir mig bara alveg sturlaðann.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? House of Fun með hljómsveitinni Madness, það kemur mér allavega í stuð.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? House of Fun með Madness.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Veit ekki hvert ég myndi fara en ég hugsa að ég myndi fara á tónleika með Rammstein. Sá þá árið ´01 og hefur alltaf langað að sjá þá aftur. Hugsa hreinlega að ég færi bara einn, finst voðalega næs að fara einn á tónleika og aðra viðburði.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Platan Vulgar Display of Power með hljómsveitinni Pantera.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Það myndi vera sænskur maður sem heitir Kristian Matsson og kallar sig The Tallest Man On Earth. Heillaðist af tónlist hans, textum og spilamennsku sem hafði mikil áhrif á hvernig ég spila á gítar í dag og eins hvað varðar textasmíðar.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Þykir voðalega vænt um plötuna The Wild Hunt með The Tallest Man On Earth. Kenndi mér margt.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?

The Tallest Man On Earth - Love is all.
Johnny Cash - Hurt.
Auður - Enginn eins og þú.
Hjálmar: Vísa úr Álftamýri.
Pantera - Becoming.
Rammstein - Reise, reise.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir