Einstakt hljóðfæri til Íslands - Verður vígt á Barokkhátíðinni á Hólum

Barokksmiðja Hólastiftis hefur látið smíða á Ítalíu hljóðfæri sem er einstakt í sinni röð hér á landi. Þetta er trúlega fyrsta hljómborðshljóðfærið sem smíðað er fyrir Íslendinga og er algjörlega sniðið að flutningi endurreisnar- og snemmbarokktónlistar. Hljóðfærið kostar um tvær og hálfa milljón króna og verður vígt á fyrsta degi Barokkhátíðarinnar á Hólum, 27. júní.

Barokksmiðja Hólastiftis var stofnuð árið 2009 til þess að efla áhuga Íslendinga á barokktónlist og öðrum listum barokktímans. Fyrsta Barokkhátíðin á Hólum var haldin sama sumar og síðan hefur hátíðin verið haldin um og fyrir síðustu helgi júnímánaðar ár hvert. Frá upphafi hefur Barokksmiðjan stefnt að því að eignast sérhæfð barokkhljóðfæri og draumurinn er svokallað strengjaorgel, sambyggt kistuorgel og semball.

Nú má segja að annar hluti strengjaorgelsins sé í höfn því hljóðfærið sem Barokksmiðjan fær afhent á næstu dögum er lítið hljóðfæri af sembalfjölskyldunni, svokallaður virginall, sem meiningin er að hægt verði að tengja við orgelið í fyllingu tímans þegar Barokksmiðjan hefur aflað fjár til smíði þess, segir í tilkynningu frá hátíðarhöldurum en strengjaorgel voru nokkuð algeng á barokktímanum.

Í strengjaorgeli má tengja saman orgelið og sembalinn þannig að bæði hljóðfærin hljómi þótt aðeins sé leikið á hljómborð annars þeirra. Slíkt hljóðfæri hentar starfsemi Barokksmiðjunnar mjög vel enda hefur það mjög fjölbreytilegan hljóm en er líka auðvelt í flutningi og meðfærilegt til notkunar við ýmis tækifæri.

Barokkhátíðinni á Hólum verður haldin 27.-30. júní nk. og eru Skagfirðingar og nærsveitamenn sérstaklega hvettir til að mæta.

Fleiri fréttir