Jákvæð rekstrarniðurstaða í fjárhagsáætlun Húnabyggðar fyrir 2026
Fjárhagsáætlun Húnabyggðar fyrir árið 2026, sem og þriggja ára áætlun áranna 2027-2029, var samþykkt á sveitarstjórnarfundi á mánudaginn. Í frétt á Húnahorninu segir að áætlað er að heildartekjur A og B hluta verði 2.883 milljónir króna árið 2026, rekstrargjöld 2.423 milljónir og afskriftir rúmar 161 milljón. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er áætluð jákvæði um 299 milljónir en að teknu tilliti til þeirra, jákvæð um 124 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað rúmar 362 milljónir en afborganir langtímalána tæpar 274 milljónir.
Áætlað er að nýjar lántökur á árinu 2026 verði um 150 milljónir og að fjárfestingar verði um 400 milljónir. Verkefnin verða svipuð þ.e. uppbygging og viðhald þeirra grunninnviða sem sveitarfélagið er með til að veita þá þjónustu sem sveitarfélaginu ber. Stærri verkefni eru t.d. vatnsveitu- og fráveituverkefni, gatnagerð, framkvæmdir við fasteignir og fleira, að því er segir í fundargerð sveitarstjórnar.
Þar kemur einnig fram að útgönguspá þessa árs gerir ráð fyrir tapi upp á um 50 milljónir króna en fjárhagsáætlun ársins 2025 gerði ráð fyrir um 19 milljóna króna tekjuafgangi.
Breytingar á gjaldskrám voru einnig samþykktar á fundinum á mánudaginn m.a. gjaldskrá fasteignagjalda. Sveitarstjórn ákvað að 10,6% hækkun sem lendir á íbúum vegna hækkunar fasteignamats verði ekki fleytt óbreytt út í álögur sveitarfélagsins á íbúa. Í stað þess hækka fasteignagjöld að jafnaði um 3,8%. Sorphirðugjöld hækka þó um 17,9% en sveitarfélagið vinnur að því að greiða ekki með sorphirðu. Aðrar gjaldskrár hækka að jafnaði um 3,8%.
Frétt af Húni.is
