Ekki fyrsta peningafölsunarmálið í Skagafirði

Danskur 100 kall frá því 1917. Ekki veit Feykir hvort um samskonar seðil er að ræða og falsaður var á Króknum 1914. MYND AF NETINU
Danskur 100 kall frá því 1917. Ekki veit Feykir hvort um samskonar seðil er að ræða og falsaður var á Króknum 1914. MYND AF NETINU

Feykir sagði frá því um liðna helgi að lögreglan á Norðurlandi vestra biðlaði til almennings og verslunareigenda að vera á varðbergi gagnvart fölsuðum peningaseðlum sem væru í umferð. Í fréttum RÚV í hádeginu kom fram að málið virðist ekki umfangsmikið, enn hefur aðeins einn falsaður 5000 krónu seðill uppgötvast, en öll peningarfölsunarmál tekur lögreglan af fullri alvöru.

Rúv.is hefur eftir Birgi Jónassyni, nýskipuðum lögreglustjóra á Norðurlandi vestra, að verslunareigandi í Skagafirði hafi tilkynnt um málið til lögreglu. „Þetta er í sjálfu sér bara mjög einföld aðferð, þannig, þetta er bara seðill sem virðist hafa verið ljósritaður báðar hliðar og límdar saman. Ég myndi nú ekki segja að þetta væri ýkja raunverulegur seðill,“ segir Birgir en tekur fram að um alvarlegt brot sé að ræða sem varðar við fangelsi. Lögreglan mun leita vísbendinga og athuga hvort hjálp sé í eftirlitsmyndavélum á svæðinu.

Fölsunarmál kennt við Jón Pálma frá því 1914

Ekki mun þetta vera fyrsta peningafölsunarmálið í Skagafirði en frægt er mál tengt Jóni Pálma Jónssyni, ljósmyndara á Sauðárkróki, sem upp kom árið 1914. Guðmundur Jósafatsson frá Brandsstöðum og Jón Jóhannesson frá Siglufirði rituðu greinar sem birtust í Skagfirðingabók árið 1993.

Þar segir að Jón Pálmi hafi falsað 16 danska National-bankaseðla, 100 krónur, og tólf 10 krónu seðla, á þann hátt að seðlarnir „...voru ljósmyndaðir, sín hlið þeirra í hvoru lagi og límdar saman. Var fölsunin mjög haglega gerð.“ Jón var ekki sá er setti peningana í umferð, það gerði Gunnar Sigurðsson veitingamaður á Sauðárkróki sem tekinn var fastur á ferð til Reykjavíkur. Hann gekkst við glæpnum og benti á Jón Pálma sem þann er framkvæmt hafði fölsunina. Í yfirheyrslum kom fram að upphaf tiltækisins hafi verið leikur sem til var stofnað með veðmáli.

Saga Jóns Pálma er öll með miklum ólíkindum en eftir að hafa játað sína sök sat hann lengi í gæsluvarðhaldi en var loks sleppt gegn tryggingu meðan hann beið dóms. Hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs betrunarhússvinnu og til að greiða allan kostnað af málinu. Dómsniðurstaðan er sögð hafa komið Jóni mjög á óvart en hann hafði gert sér vonir um að þurfa einungis að greiða sekt. Snemma vors 1915 hvarf Jón af Sauðárkróki. Var gerð að honum dauðaleit en allt kom fyrir ekki. Hann komst til Siglufjarðar eftir að hafa verið í felum og um haustið komst hann til Noregs með norsku flutningaskipi undir nafninu Arne Hansen.

Kristmundur Bjarnason frá Sjávarborg sagði frá þessu máli í Sögu Sauðárkróks en hér má finna slóð á frásögn Guðmundar og Jóns í Skagfirðingabók >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir