Fagna því að hundrað ár eru liðin síðan konur hlutu kosningarétt
Á sunnudaginn kemur, þann 1. febrúar, ætlar Samband skagfirskra kvenna að standa fyrir Afmælisfagnaði í Miðgarði í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin 100 ár síðan íslenskar konur fengu kosningarétt. Á dagskránni eru meðal annars fyrirlestrar og gamanmál, söngur og ljósmyndasýning.
Í Feyki í síðustu viku var rætt við Sigríði Garðarsdóttur formann Sambands skagfirskra kvenna. Sigríður fjallar um starfsemi kvenfélaganna í Skagafirði og afmælisfagnaðinn sem er framundan. „Við erum svo stálheppin að það eru engin þorrablót í Miðgarði þessa helgi. Og þeir sem verða á þorrablótum daginn áður ættu að vera orðnir ferðafærir um miðjan dag. Ég hvet því alla til að mæta og þær konur sem eiga íslenskan búning til að skarta í honum,“ sagði Sigríður að lokum.