Farsæl samvinna Farskólans og stéttarfélaga heldur áfram

Frá árinu 2013 hefur Farskólinn verið í afar skemmtilegu og farsælu samstarfi við stéttarfélög um fræðslu og án efa má finna dæmi um samstarf lengra aftur. Í frétt á heimasíðu Farskólans segir að samstarfið hafi upphaflega hafist með því að Farskólinn hélt stök námskeið fyrir félagsmenn einstakra félaga og einnig á ákveðnum vinnustöðum en fljótlega þróaðist samstarfið og haustið 2014 sameinuðu félögin Kjölur, Sameyki (þá SFR) og Samstaða krafta sína og buðu sameiginlega upp á námskeið fyrir sína félagsmenn. Fljótlega bættist Aldan við og síðan Verslunarmannafélag Skagafjarðar.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur þetta samstarf um framboð á fræðslu aukist og styrkst. Vorið 2020 kom systurstofnun Farskólans á Eyjafjarðarsvæðinu, SÍMEY, inní samstarfið og þá bættist stéttarfélagið Eining Iðja, sem er nokkurs konar ,,Aldan/Samstaða“ þeirra Eyfirðinga í hópinn. Frábær vítamínsprauta og hefur samstarfið verið afar farsælt.

„Við í Farskólanum erum afskaplega þakklát og ánægð með þetta frábæra samstarf og fylgjumst spennt með vexti þess og auknum styrk á næstu misserum,“ segir í fréttinni.

Ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt hefur verið í boði frá því samstarfið hófst og fjöldi námskeiða farinn að telja í hundruðum. Á Farskólinn.is má sjá yfirlit yfir þau tíu námskeið sem í boði eru vorið 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir