Feykir inn á hvert heimili á Norðurlandi vestra

Fermingarblað Feykis kemur út í dag, stútfullt af skemmtilegu efni sem tengist fermingum og páskahátíðinni beint og óbeint. Einnig er að finna efni sem tengist þessum viðburðum ekki neitt, en er forvitnilegt engu að síður. Blaðið ætti að rata inn á hvert heimili á Norðurlandi vestra áður en vikan er úti sem og til áskrifenda utan svæðisins.

Meðal efnis í blaðinu er grein frá margmiðlunarvali Árskóla þar sem þau fara yfir það hvernig það sé að vera unglingur á Sauðárkróki. Halldór Gunnar Ólafsson á Skagaströnd svarar Tón-lystinni; Hasna Boucham segir frá íslamstrú og Ramadam; Baldur Ingi Haraldsson er í Liðið mitt en þar er að finna nokkrar fermingarspurningar innan um hinar hefðbundnu fótboltaspurningar; Sigga Garðars skoðar fermingartískuna 2018; séra Guðni Þór Ólafsson er í viðtali; Hrafnhildur Skaptadóttir gefur góð heilræði fyrir undirbúning fermingarveislunnar; Ásta Pálma svarar fermingarspurningum en 40 ár eru síðan hún fermdist; Kristín Sigurrós Einarsdóttir segir lesendum frá ástarsögulestri sínum frá fermingarárunum í Bók-haldinu; Læknirinn í eldhúsinu er í viðtali og gefur ljúffenga uppskrift af fylltu veislubrauði; verðlaunakrossgátan er á sínum stað; Jón Pálmason ákvað að fermast ekki og Feykir forvitnaðist um ástæðuna; 708. vísnaþátt Guðmundar Valtýssonar er einnig að finna í blaðinu og Guðrún Þórbjarnardóttir, brottfluttur Skagstrendingur ritar áskorandapennann.

Síðast og ekki síst má nefna matgæðingana Sigurveigu og Sigmar á Stóru-Giljá en þau bjóða upp á pönnufisk og eplapæ.

Auk alls þessa eru fréttir íþróttir og að sjálfsögðu svara fermingarbörn spurningum um ferminguna sína.

Forsíðumynd Feykis að þessu sinni er af sr. Gísla Gunnarssyni, sóknarpresti í Glaumbæjarprestakalli og börnum sem hann fermir í vor, ýmist í Glaumbæjar-, Rípur-, Reynistaðar- eða Sjávarborgarkirkju.

Þau eru fv.: Óskar Aron Stefánsson Álfheimum; Steinar Óli Sigfússon, Stóru – Gröf syðri; Ólafur Benóný Jónsson, Varmahlíð; Þorleifur Feykir Veigarson, Eyhildarholti; Sigurjón Heiðar Sigurbjörnsson, Garði; Ólöf Bára Birgisdóttir, Ríp og Ragnheiður Petra Hjartardóttir, Sauðárkróki;. Á myndina vantar Dagnýju Erlu Gunnarsdóttur, Egilsstöðum.

Myndina tók Gunnhildur Gísladóttir, ljósmyndari, við Alexandersflugvöll. Hegranesið í bakgrunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir