Finnst þér þetta í lagi?

Umgengni við ruslagáma í Skagafirði hefur oft verið slæm og það svo að Flokka, sem sér um ruslamál og flokkun til endurvinnslu í firðinum, hefur séð sig knúna til að vekja athygli á því á fébókarsíðu sinni. Sl. föstudag var aðkoman að gámnum við Ljósheima afar slæm þar sem sófar, dýnur, rúmbotnar, reiðhjól, grill og fleira var á víð og dreif.
Á fésbókarsíðu Flokku segir að gámurinn sé fyrir almennt sorp. Húsgögn, járn og annað fyrirferðamikið rusl eigi að koma með inn til Flokku. Þar er opnunartíminn frá kl 9-18 mánudaga til fimmtudaga og 9-17 á föstudögum. Svo er líka opið um helgar.
„Við viljum ENN OG AFTUR biðla til íbúa í sveitarfélaginu að ganga vel um gámasvæðin og hjálpa okkur að halda firðinum fallegum,“ segir Flokka og efalaust geta allir tekið undir það.