Fjögur lömb í Laxárdal
Feykir greindi frá því í síðustu viku að tvö hrútlömb hefðu komið í heiminn á Ytri-Hofdölum í Skagafirði á bóndadag og eitt til á Óslandi í Skagafirði degi síðar. Var það hrútur sem fékk að sjálfsögðu nafnið Þorri. Þetta verður að teljast nokkuð snemmbúinn sauðburður en samt sem áður hafa nú borist fregnir af einni á til hér á svæðinu sem skaut þeim báðum ref fyrir rass og bar fjórum lömbum að morgni 13. janúar.
Ærin sú heitir Gola og er í eigu Jónu Guðrúnar Ármannsdóttur og Jóhanns Ragnarssonar, bænda í Laxárdal 3 í Hrútafirði. Að sögn Jónu Guðrúnar er Gola sjálf fjórlembingur af Þokukyni, fædd árið 2014 og er því að bera í fjórða sinn. Það er óhætt að segja að Gola hafi verið frjósöm um dagana en sem gemlingur var hún þrílembd, tvílembd sem tvævetla og í fyrravor var hún þrílembd en lömbunum lét hún í það skiptið í lok mars. Það er víst engum blöðum um það að fletta að Gola hefur hitt einhvern sætan hrút í lok ágúst og þetta er útkoman. Lömbin fjögur eru einn hrútur og þrjár gimbrar sem fengu heitin Janus, Hrafntinna, Prinsessa og Perla.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.