Fögnum með Moniku og Hagalín
Bókaútgáfan Sæmundur hefur endurútgefið bókina Konan í dalnum og dæturnar sjö eftir Guðmund G. Hagalín. Af því tilefni verður útgáfuhóf í Pennanum-Eymundsson í Austurstræti klukkan 15:00 laugardaginn 29. júlí.
Hrafnhildur Hagalín les úr bók afa síns og gestir njóta léttra veitinga í boði útgáfunnar. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Bók þessi kom út árið 1954 og var söguhetjan Monika Helgadóttir þá 53 ára að aldri. Hún bjó þá, og um áratugi þar á eftir, ekkja á sínu afskekkta býli með sjö dætrum og einkasyni.
Í sex áratugi hefur bókin Konan í dalnum og dæturnar sjö verið umsetin í fornbókaverslunum og á bókasöfnum. Hún nýtur nú meiri vinsælda en nokkur önnur bók eftir Guðmund G. Hagalín.
Í meðförum Hagalíns verður Monika á Merkigili ekki aðeins barnmörg húsfreyja í sveit heldur táknmynd íslensku sveitakonunnar. Konunnar sem borið hefur þjóð sína í móðurörmum og umvafið hana með fórnfýsi og kærleika öld eftir öld.
Konan í dalnum og dæturnar sjö kemur nú út í nákvæmri eftirgerð fyrri útgáfu með stuttum eftirmála sem unninn er í samvinnu við Skarphéðin, einkason Moniku.
Konan í dalnum og dæturnar sjö er harðspjalda bók með lausblaðakápu. 344 síður.
ISBN 978-9935-465-71-9. Leiðbeinandi verð kr. 6.490,- en hún verður fyrst um sinn seld á sumartilboði sem er 4.990 kr.
(Þess má geta að Feykir birti kafla úr bókinni í síðasta tölublaði sínu sem kom út þann 26. júlí sl.)
/Fréttatilkynning