Fréttatilkynning frá meirihluta í sveitarstjórn Skagafjarðar

Gísli Sigurðsson og Einar E. Einarsson handsala meirihlutasáttmála Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í sameinuðu sveitarfélagi Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar í júní 2022 í Kakalaskála. Myndir: PF.
Gísli Sigurðsson og Einar E. Einarsson handsala meirihlutasáttmála Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í sameinuðu sveitarfélagi Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar í júní 2022 í Kakalaskála. Myndir: PF.

Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn Skagafjarðar fagnar því að stór félög innan ASÍ hafi skrifað undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins og að meginmarkmið þeirra sé að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum í landinu.

Sveitarfélagið Skagafjörður mun leggja sitt af mörkum til að kjarasamningarnir gangi eftir, þar með talið að draga úr hækkunum á almennum gjaldskrám úr 4,9% í 3,5% fyrir árið 2024 ásamt því að taka upp gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum frá og með haustinu 2024, eins og gert er ráð fyrir í nýju samningunum. Aðkoma ríkisins með fjármagn í það verkefni er mikilvægt og gerir öllum sveitarfélögum kleift að takast á við það. Framundan er ærin vinna við endurskoðun fjárhagsáætlunar vegna breytinganna og að leita leiða til hagræðinga á móti. Mikilvægt er að við róum öll í sömu átt til að ná þeim markmiðum sem lagt er upp með.

Með gerð þessara samninga er stigið stórt skref í þá átt að ná sátt á vinnumarkaði til fleiri ára og er það mikilvægt. Það er því von okkar að þessir samningar verði öðrum félögum sem enn er ósamið við leiðarljós, en til að þær kjarabætur sem hér er samið um með aðkomu ríkis og sveitarfélaga gangi eftir þurfa allir að taka þátt með sambærilegum hætti. Þá er unnt að ná niður verðbólgu og vöxtum sem er mesta kjarabótin fyrir alla.

Einar E. Einarsson, Guðlaugur Skúlason, Hrefna Jóhannesdóttir, Hrund Pétursdóttir, Sólborg S. Borgarsdóttir.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir