Frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof í samráðsgátt

Frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda en umsagnafrestur er til 12. nóvember 2019. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs lengist úr níu mánuðum samkvæmt gildandi lögum í tólf mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Annars vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020 og hins vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er meðal annars gert ráð fyrir lengingu á rétti foreldra til fæðingarorlofs. Enn fremur kveða lífskjarasamningar á almennum vinnumarkaði, sem samkomulag náðist um í vor, á um að efla fæðingarorlofskerfið með því að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Þá kemur fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 að gert sé ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr níu mánuðum í tólf mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021.

 „Ég hef lagt gríðarlega áherslu á að efla fæðingarorlofskerfið í heild. Hámarksgreiðslur hafa þegar verið hækkaðar og nú er komið að lengingunni. Samhliða fer fram heildarendurskoðun laganna sem lýkur á næsta ári. Ég gleðst yfir þessum framfaraskrefum og er þess fullviss að þær verði fjölskyldum og ekki síst börnum þessa lands til góða,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Tuttugu ár verða liðin frá gildistöku laganna árið 2020. Þau þóttu byltingarkennd á sínum tíma en nú þykir tímabært að taka þau til endurskoðunar. Ásmundur Einar hefur skipað nefnd í tengslum við þá heildarendurskoðun og er gert ráð fyrir að vinnu hennar ljúki  í tíma til þess að hægt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi að ári.

Frumvarpið má sjá HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir