Fyrirmyndarflokkun í Húnaþingi vestra
Íbúar Húnaþings vestra fá sérstakt hrós á vefsíðu sveitarfélagsins nú á dögunum en þar kemur fram að á fundum með sorphirðuverktaka hafi það ítrekað komið fram hve vel sé flokkað í sveitarfélaginu og að mikið magn skili sér til þeirra. Á þetta jafnt við um þéttbýli og dreifbýli en sérstakt hrós fá þó bændur fyrir frágang á áburðarsekkjum og rúlluplasti eins og sjá má á Facebooksíðu Flokku ehf. á Sauðárkróki sem sér um að safna því saman.
„Það er greinilegt að íbúar Húnaþings vestra hafa metnað til þess að gera vel þegar kemur að flokkun og endurvinnslu og fylgjast vel með þeim leiðbeiningum sem sveitarfélagið hefur sett fram í málaflokknum á undanförnum árum,“ segir á vef sveitarfélagsins. Þar er ennfremur hnykkt á leiðbeiningum varðandi flokkun í sveitarfélaginu.
Almennt um flokkun og endurvinnslu í Húnaþingi vestra:
Plast og pappír:
Ekki er þörf á því lengur að setja plast/plastumbúðir saman í plastpoka áður en sett er í endurvinnslutunnuna. Nú má plastið fara laust í tunnuna með pappír, pappa og málmum.
Undantekning er þó sú að ef farið er með plastumbúðir í lúgurnar á girðingu Hirðu, þá er mælst til að plastið sé saman í plastpoka til að hindra fok þegar verið er að losa sekkina.
Ef komið er með efni í endurvinnslu á opnunartíma Hirðu, vinsamlegast hafið samband við starfsmenn Hirðu frekar en að setja beint í lúgu. Það sparar starfsmönnum sporin að geta komið efninu beint í pressugáma.
Á gámavellinum eru tveir pressugámar, annar fyrir pappír og pappa og hinn fyrir plast. Það þarf t.d. ekki að brjóta saman pappakassa áður en þeir eru settir í gáminn vegna pressunnar í gámnum.
Öllu endurvinnsluefni sem kemur inn á völlinn er að sjálfsögðu hægt að skila án sérstaks gjalds.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.