Fyrst tökum við Venezúela og svo... | Leiðari 2. tbl. Feykis 2026

Óli Arnar.
Óli Arnar.

Það er rétt að byrja á því að óska lesendum Feykis gleðilegs nýs árs. Árið 2025 var að mörgu leyti hið ágætasta fyrir okkur Íslendinga, sneisafullt af veðurblíðu, málþófi um veiðigjald og tappaþref á þingi og alls konar sem Áramótaskaupið minnti okkur á. Skaupið var svo ljómandi gott að eltihrellar og net-tröll náðu sér engan veginn á strik á samfélagsmiðlunum og þar ríkti þögnin ein á nýársnótt.

Árið 2026 fer rólega af stað hér á Fróni en frændur okkar á Grænlandi lifa nú í ótta, upplifa martraðir bæði í svefni og vöku. Ástæðan er sú að ólíkindatólið í Hvíta húsinu virðist hafa ákveðið að sölsa undir sig Grænland, með íshellu og öllu sem undir er, hvort sem er með góðu eða illu. Hann óttast að Rússar eða Kínverjar muni taka Grænland fyrr en seinna og því sé betra fyrir Bandaríkin að verða fyrri til. Hann virðist gefa lítið fyrir rétt og rangt og gerir bara það sem hentar honum. En kannski er ótti hans á rökum reystur?

Í Willta Westrinu var á 19. öld gaur að nafni Phantly Roy Bean Jr., kráareigandi og friðardómari í Val Verde-sýslu í Texas, sem sagði sína lagabókstafi vera einu lögin vestan við Pecos-fjöllin. Hann hélt réttarhöld í krá sinni við Rio Grande á afskekktum stað í Chihuahua-eyðimörkinni. Sagan segir að lögfræði hans hafi verið algjörlega út í hött og í mörgum tilfellum drepfyndin. Kviðdómar hans voru jafnan skipaðir bestu kúnnunum hans á kránni. Hann hafði mikið dálæti á sjálfum sér og taldi sig vera mikinn kvennaljóma, giftist 18 ára stúlku þegar hann var um fimmtugt, lifði af hengingu, flúði úr fangelsi og þar fram eftir götunum. Ótrúlega sögu Roy Bean má m.a. lesa um á Wikipedia eða í Rangláti dómarinn (sagan um Hróa Grænbaun/Roy Bean) sem er bók 18 í Ævintýrum Lukku Láka.

Ástæðan fyrir því að ég nefni Hróa Grænbaun til sögunnar er sú að frændi hans í Hvíta húsinu minnir mig oft á Hróa, enda saga þeirra á köflum keimlík. Lög Trumps virðast þó ná yfir töluvert víðfeðmara svæði en lög Hróa. Kannski er ekki ástæða fyrir Grænlendinga að óttast yfirtöku af hendi Bandaríkjamanna en það er skrítinn heimur fyrir friðelsk-andi þjóð að sitja undir svona ógnum. Eiginlega alveg galið.

En að öðru. Í síðustu viku féll frá ein af risaeikum íslenskrar tónlistar, Maggi Eiríks – meistari Mannakornanna. Lög, textar og smekkvísi Magga í tónlistinni er eitthvað sem við Íslendingar getum hallað okkur upp að við öll tækifæri. Hvað er sannara og íslenskara en Braggablúsinn, Einbúinn, Þorparinn, Sölvi Helga, Garún og Ferjumaðurinn. Maggi var og verður stefið í íslensku þjóðarsálinni.

Í minni æsku voru það einkum tvær kassettur sem öll fjölskyldan gat sammælst um að væru í spilun þegar farinn var sunnudagsrúnturinn. Annars vegar fyrsta útgáfa Manna-korna og hins vegar Verst af öllu með Ríó Tríó þar sem Helgi P og félagar sungu um Kvennaskólapíur, Sigga Jóns, Óla Jó og þegar Stebbi fór á sjóinn. Helgi lést í desember.

Svona hverfa þessar raddir æskunnar úr lífi manns – en samt ekki. Þær lifa endalaust.

Óli Arnar Brynjarsson.
ritstjóri Feykis

Fleiri fréttir