Gagnlegur íbúafundur um framtíðarskipan skólamála
Í lok nóvember var haldinn íbúafundur um framtíðarskipan skólamála í Húnaþingi vestra til næstu 30 ára. Var hann haldinn í Félagsheimilinu á Hvammstanga og var vel sóttur að því er segir á vef Húnaþings vestra.
Var fundurinn haldinn í framhaldi af skipan starfshóps sem stýrði vinnu við mat á húsnæðismálum skólans og leitaði til íbúa með umræðu og hugmyndir. Á fundinum var rýnivinna starfshópsins kynnt og hugmyndir um framtíðarskipan lagðar fyrir umræðuhópa á sex borðum þar sem annars vegar var kallað eftir sýn íbúa á innra skipulagi framtíðarskólahúsnæðis og hins vegar hvort, og þá hvaða, aðrar stofnanir gætu átt samleið í húsnæði skólans.
Á vef Húnaþings vestra segir að fundurinn hafi verið afar gagnlegur. Skýrar hugmyndir hafi komið fram um flest atriði sem hafa beri í huga við viðbyggingu við skólann, í hvaða forgangsröð eigi að framkvæma og hvaða stofnanir komi til greina með starfsemi í húsnæði skólans.
Niðurstöður fundarins verða kynntar sveitarstjórn og munu þær í framhaldinu fara í almenna kynningu þar sem íbúum gefst aftur tækifæri að hafa áhrif á undirbúning viðbyggingar við grunnskólann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.