Gestakennsla kennara Ferðamáladeildar í Háskólanum í Suðaustur-Noregi í Bø
Guðrún Helgadóttir, prófessor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum, gegnir einnig um þessar mundir prófessorsstöðu í ferðamálafræði við Háskólann í Suðaustur-Noregi, (University College of Southeast Norway) í bænum Bø i Telemark, um 150 km frá Osló. Eitt af námskeiðunum sem Guðrún kennir þetta vorið heitir Nature, Culture and Guiding og fékk hún samstarfsfólk sitt á Hólum til að taka þátt í því með sér.
Á heimasíðu Háskólans á Hólum kemur fram að Anna Vilborg Einarsdóttir lektor við Ferðamáladeild, sem nýverið lauk rannsókn á hlutverki leiðsögumanna og framlagi þeirra til náttúruverndar, hafi verið á leið til Svalbarða í Noregi í lok febrúar í ákveðnum erindagjörðum. Hún sló tvær flugur í einu höggi og hóf Noregsferðina á því að koma við í Bø og halda fyrirlestur um rannsóknina fyrir nemendur Guðrúnar.
Stuttu seinna var Laufey Haraldsdóttir, lektor og deildarstjóri með fyrirlestur í námskeiði Guðrúnar, þar sem hún fjallaði um landnotkun, náttúruvernd, virkjanir og ferðamennsku. Þá var tæknin nýtt því Laufey tók upp fyrirlesturinn á skrifstofu sinni á Hólum og sendi til Noregs.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.