Gistinóttum á Norðurlandi fækkar milli ára
Gistinóttum erlendra ferðamanna á hótelum hefur fjölgað um 1% séu bornir saman maímánuðir ársins í ár og síðastliðins árs. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en hún er byggð á gögnum frá Hagstofunni.
Breytingin milli ára í maímánuði var mjög misjöfn milli landssvæða og skera Vesturland og Vestfirðir sig mikið úr hvað aukningu snertir en hún var 46%. Hins vegar er langmesti hlutfallslegi samdrátturinn á Norðurlandi þar sem gistinóttum fækkaði um 20,7% eða 4.700 gistinætur.
Sé hins vegar litið til fyrstu fimm mánaða ársins í heild hefur hlutfallsleg fjölgun verið næstmest á Norðurlandi eða 7,7%, næst á eftir Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem sambærileg tala var 23%. Heildarfjölgun gistinótta á landinu öllu nam 23.400 gistinóttum og munaði þar mest um mikla fjölgum á Suðurlandi eða 13.900 milli ára sem er 5,8% hlutfallsleg fjölgun.
Síðustu misserin hefur framboð hótelherbergja aukist. Milli áranna 2016 og 2017 jókst það um 9,2% sem er talsvert minni aukning en milli áranna 2015 og 2016 þegar hún var 19,5%. Athygli vekur hve þróunin er ólík séu Norðurland vestra og eystra borin saman. Á Norðurlandi eystra var aukning upp á 15,4% á síðasta ári en samdráttur upp á rúm 30% á Norðurlandi vestra. Herbergjaframboð er einnig mjög mismunandi milli þessara tveggja svæða eða 852 herbergi á Norðurlandi eystra en aðeins 100 herbergi á Norðurlandi vestra. Hins vegar hefur mesta aukning á framboði fyrstu fimm mánuði þessa árs miðað við sama tima í fyrra orðið á Norðurlandi vestra þar sem hún var 35% en heildaraukningin yfir landið 8,2%. Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 5,6% milli sömu tímabila.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.