„Góð umhirða á húðinni algjörlega númer 1,2 og 3“
María Ósk Steingrímsdóttir er 22 ára Sauðárkróksmær. Eins og er vinnur hún hjá Fisk Seafood en stefnir á nám erlendis í framtíðinni. Feykir spurði Maríu Ósk út í daglega förðunarrútínu hennar.
„Ég stefni á að flytja til Svíþjóðar næsta vetur, byrja á tungumálanámi og hefja svo fljótlega háskólanám í Gautaborg, en það á eftir að koma betur í ljós hvað ég ætla að læra. Það eru nokkrar ólíkar greinar sem eru að heilla mig og erfitt að velja á milli, eins og er eru mestar líkur á að ég fari í fjármálaverkfræði, en ég skipti um skoðanir á vikufresti, svo það er aldrei að vita og mjög spennandi að sjá í hverju ég enda,“ segir María Ósk í samtali við Feyki.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Mín helstu áhugamál eru ferðalög, ég er með mjög mikla ævintýraþrá og hef mikinn áhuga á að skoða heiminn og upplifa nýja og spennandi hluti. Svo hef ég líka alltaf haft mikinn áhuga á söng og tónlist og öllu sem því tengist. En að eyða tíma með vinum og fjölskyldu er algjörlega númer 1,2 og 3 hjá mér.
Hver er þín daglega förðunarrútína?
Ég farða mig rosalega lítið þessa dagana og þess vegna finnst mér mjög gott að skella bara smá CC kremi á andlitið fyrir vinnu til að fríska aðeins uppá húðina, en ég er að nota Nude Magique frá L’Oreal.
1. Þegar ég farða mig dags daglega þá byrja ég auðvitað á húðinni fyrst, strýk létt yfir með blautum bómul og toner, set á mig dagkrem og þá get ég byrjað á förðuninni, og inniheldur hversdagsförðunin mín:
2. Farða, núna er ég að nota Studio Fix frá Mac sem mér finnst mjög fínn, en minn uppáhalds er samt Teint Miracle frá Lancome.
3. Sólarpúður, ég geri ekki miklar kröfur þegar kemur að sólarpúðrinu, ég vil bara ekki hafa glimmer í því og nota ég Bronzing Powder frá H&M.
4. Kinnalit, ég nota Peony Petal frá Mac.
5. Augnbrúnagel frá Mac, það heitir Fluidline Brow Gelcreme og liturinn er Deep Dark Brunette.6. Maskara, ég elska maskarana frá Lancome og þá aðallega Drama, Grandiose og Doll Eyes, en Drama er samt í mestu uppáhaldi og ég hef notað hann í mörg ár. Svo finnst mér alveg nauðsynlegt að nota augnhárabretti, í mínu tilfelli vegna þess að ég er með svo löng og þung augnhár, en svo er hann líka bara alveg ómissandi til að skerpa augun.
7. Varasalva/varalit, þetta er mjög misjafnt, yfirleitt nota ég bara mildann varasalva til að fá smá mýkt og glans á varirnar, oft nota ég líka ljósa og daufa varaliti undir til að fá svona smá lit, og þá er það yfirleitt Snob frá Mac sem verður fyrir valinu. Svo koma dagar sem maður gengur aðeins lengra og fer útí dekkri litina og þar eru margir í uppáhaldi.
Hver er þín uppáhalds förðunarvara?
Ég myndi segja að blauti gel eyelinerinn sé í uppáhaldi hjá mér, ég alveg elska fallega mótaða cat-eye línu á augnlokin.
Hvenær byrjaðir þú að farða þig?
Í kringum fermingaraldurinn minnir mig.
Hvað er þitt versta „förðunarslys“?
Ætli það hafi ekki bara verið þegar maður var að byrja að prufa sig áfram með augnskuggana í denn, og endaði með glóðurauga á báðum.
En svona almennt, hver eru þá algeng „förðunaslys“ að þínu mati?
Persónulega finnst mér augabrúnirnar skipta lang mestu máli þegar kemur að útlitinu og ef þær eru ekki rétt meðhöndlaðar getur það skemmt heildarlúkkið algjörlega. Það skelfilegasta sem ég veit er þegar stelpur taka svarta eyelinerinn sinn sem er yfirleitt notaður á augnhvarmana, og teikna fast ofan í augabrúnirnar á sér með honum. Úfffff, það er rosalegt.Lögunin og mótunin á augabrúnunum skiptir svo gríðarlega miklu máli, en stelpur eru auðvitað með rosalega misjafnar skoðanir á því hvað teljast fallegar augabrúnir.
Hvað er þitt helsta náttúrulega leyndarmál að betra útliti?
Húðin!!! Góð umhirða á húðinni er algjörlega númer 1,2 og 3. Falleg og heilbrigð húð skiptir öllu máli að mínu mati. Ég er rosalega hrifin af Tea Tree línunni frá The Body Shop og ég er að nota tonerinn, andlitsskrúbbinn, maskann og andlitskremið frá þeim og er mjög ánægð. Ég nota skrúbbinn í hverri sturtuferð, tonerinn nota ég kvölds, morgna og eftir sturtuna áður en ég set dagkrem í andlitið, svo reyni ég að muna að nota maskann allavega einu sinni í viku.
En það er gott að hafa það í huga að ef maður er að nota svona mikið Tea Tree þá skiptir gríðarlega miklu máli að vera með gott rakagefandi dagkrem á móti. Tea Tree olían er nefnilega svo sótthreinsandi og á það þá til að þurrka húðina, og ég tala nú ekki um ef maður er með þurra húð fyrir. Plús elsku kuldinn okkar hérna á klakanum. En þú finnur ekki fyrir þessu ef þú ert með gott rakakrem. Sjálf nota ég E-vítamín dagkremið „fyrir venjulega húð“ frá The Body Shop og það virkar mjög vel, en ég þyrfti stundum að eiga „fyrir þurra húð“ svona í mestu veðurbreytingunum.
Lítur þú upp til einhvers einstaklings þegar kemur að förðun?
Heyrðu nei, ótrúlegt en satt þá er engin ein manneskja sem ég lít mest upp til, ég skoða mjög margar farðanir og allskonar förðunaraðferðir á netinu, en það er hjá fullt af manneskjum sem mér finnst allar góðar á sinn eigin hátt.
Ef þú mættir velja hvern sem er í heiminum til að kíkja í snyrtitöskuna hjá, hvern myndir þú velja?
Það væri mjög erfitt val, en ég held ég myndi mest vilja kíkja í snyrtibudduna hjá Rihönnu eða Nicki Minaj því þær eru svona töff týpur og nánast aldrei eins þegar maður sér þær. Annars væri ekkert leiðinlegt að vera fluga á vegg þegar verið er að farða Kardashian/Jenner systurnar.