Góðar starfsvenjur í evrópskum skólum á tímum Covid

MYND AF HEIMASÍÐU ÁRSKÓLA
MYND AF HEIMASÍÐU ÁRSKÓLA

Á heimasíðu Árskóla á Sauðárkróki er sagt frá því að skólinn er þátttakandi í Evrópuverkefni sem leitt er af vendinámssetri Keilis í Reykjanesbæ. Snýr verkefnið að góðum starfsvenjum í evrópsku skólakerfi á tímum Covid. Verkefnið, sem nefnist BestEDU, er styrkt af Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins og er til tveggja ára. Það er unnið í samstarfi átta skóla og fræðslustofnana í sex Evrópulöndum.

Í frétt á vef Árskóla segir að fyrsti fundur verkefnisins fór fram í Danmörku um miðjan október 2021 en þar fengu þátttakendur tækifæri á að kynnast niðurstöðum danskra rannsókna um áhrif Covid, auk þess sem hópnum gafst tækifæri til að heimsækja danskar skólastofnanir og heyra af reynslu kennara og nemenda á skólahaldi á tímum heimsfaraldursins.

Markmið verkefnisins er að draga saman þær breytingar sem hafa átt sér stað í skólum á undanförnum misserum, hvernig Covid hefur aðlagað skólastarf að breyttu námsumhverfi og hvernig snemmtæk íhlutun og aðlögunarfærni hefur haft jákvæð áhrif á framvindu náms í evrópskum skólum.

Sérstaklega verður litið til reynslu kennara og nemenda á fjarnámi, auk þess hvernig námsgreinar og skólar sem hafa minni reynslu af innleiðingu fjarnáms eða vendináms í skólastarfi geta dregið lærdóm af skólahaldi á tímum Covid.

Þátttakendur í verkefninu eru: Árskóli á Sauðárkróki, Fisktækniskóli Ísland, Háskólinn í Austur Finnlandi, Háskólinn í Suður Danmörku, Action Synergy í Grikklandi, Galileo starfsmenntastofnunin á Ítalíu og Slava Raškaj Educational Centre í Króatíu.

Sjá nánar >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir