Góðir þorskhnakkar og marengsterta

Matgæðingarnir Hulda og Konráð með börnunum sínum fimm. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Hulda og Konráð með börnunum sínum fimm. Aðsend mynd.

Uppskriftir 37. tölublaðs 2018 komu úr Skagafirðinum en það voru hjónin Hulda Björg Jónsdóttir og Konráð Leó Jóhannsson sem gáfu okkur þær. Þau búa á Sauðárkróki og starfa bæði hjá FISK Seafood, Konráð sem viðhaldsmaður og Hulda er starfsmanna- og gæðastjóri. Þau telja því vel við hæfi að gefa uppskrift af ljúffengum þorskhnökkum sem þau segja að vel sé hægt að nota spari líka og ekki saki að fá sér marengstertusneið í eftirrétt.

AÐALRÉTTUR
Góðir þorskhnakkar

4 hnakkar
8 hvítlauksrif
½ rauð paprika
½ græn paprika
1 rauðlaukur, saxaður
1 fiskiteningur
1 kjúklingateningur
½ l vatn
2 tsk karrí
1 tsk cummen
matreiðslurjómi

Aðferð:
Léttsteikið lauk, bætið í hvítlauk og papriku. Vatn látið út í og teningar og krydd. Veltið þorskhnökkunum upp úr hveiti og kryddið með salti og pipar og brúnið þá á pönnu. Hnakkar settir í eldfast mót og helmingur af grænmetisblöndunni settur yfir. Eldið í ofni við 200°C í 20 mínútur. Hinn helmingurinn af grænmetisblöndunni er settur í pott og notaður í sósu sem er þykkt með matreiðslurjóma. Berið fram með til dæmis sætum kartöflum með rósmarín og fersku salati.

EFTIRRÉTTUR
Marengsterta með súkkulaðirúsínum

4 eggjahvítur
200 g sykur
2 bollar Rice Krispies

Aðferð:
Eggjahvítur og sykur er stífþeytt og Rice Krispies sett varlega saman við.

Á milli botna:
1 peli rjómi
1 poki af ljósum súkkulaðirúsínum

Krem ofan á tertu:
4 eggjarauður
100 g brætt suðusúkkulaði
2 msk. þeyttur rjómi
3-4 msk. flórsykur

Tertan skreytt með því að dreifa súkkulaðirúsínum ofan á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir