Gul viðvörun til hádegis

Gul viðvörun er í gildi til hádegis. Skjáskot af vef Veðurstofunnar.
Gul viðvörun er í gildi til hádegis. Skjáskot af vef Veðurstofunnar.

Gul veðurviðvörun er nú í gildi á Norðurlandi og verður svo fram til hádegis. Hvöss norðan og norðaustan átt er á landinu og verður áfram næstu daga. Spáin gerir ráð fyrir stífri norðan og norðaustan átt en hvassari á stöku stað með talsverðri snjókomu, einkum á Tröllaskaga þar sem er óvissustig vegna snjóflóða og hættustig á Siglufirði.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra spáir norðan og norðaustan 10-18 m/s í dag, en 8-15 á morgun, hvassast úti við sjóinn. Snjókoma í fyrstu, en síðan él og frost 2 til 7 stig.

Veðurhorfur næstu daga eru þær að á laugardag verði norðan 13-20 m/s og snjókoma eða éljagangur, hvassast SA-lands, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost víða 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna. Norðan 8-15 m/s og él á sunnudag en léttskýjað S- og V-lands. Frost 1 til 8 stig, minnst syðst.

Áfram er gert ráð fyrir norðlægum áttum fram í næstu viku með snjókomu eða éljum.

Af færð er það að frétta að vegurinn um Þverárfjall er lokaður, svo og Siglufjarðarvegur utan Ketiláss. Milli Hofsóss og Ketiláss er ófært og þæfingur og snjókoma milli Hofsóss og Sauðárkróks. Snjóþekja er á Öxnadalsheiði og skafrenningur og éljagangur. Á flestum öðrum aðalleiðum er hálka.

Sjá nánar á vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is og á vef Veðurstofu Íslands, vedur.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir