Gul viðvörun Veðurstofunnar í gildi

Skjáskot af vef Veðurstofunnar.
Skjáskot af vef Veðurstofunnar.

Veðurstofan hefur sent frá sér gula viðvörun fyrir Faxaflóasvæðið, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra auk miðhálendisins þar sem gert er ráð fyrir sunnan og suðvestan hvassviðri. Því er ferðalöngum, og þá einkum þeim sem eru á farartækjum sem taka á sig vind, bent að fylgjast vel með veðri. 

Veðurhorfurnar á landinu til morguns eru þær að gert er ráð fyrir sunnan- og suðaustanátt, 10-18 m/s vestan til með súld eða rigningu en allt að 23 á norðvestanverðu landinu og miðhálendinu. Hægari vindur á Norður- og Austurlandi og bjartviðri. Heldur hægari um tíma í nótt.
Á morgun reiknar Veðurstofan með suðvestan átt, 13-23 m/s, áfram hvassast norðvestan til með snörpum hviðum og einnig á miðhálendinu. Víða skúrir, en léttskýjað fyrir austan. Hiti verður 10 til 20 stig, hlýjast á Austurlandi. 

Í landshlutaspá fyrir Strandir og Norðurland vestra segir á vedur.is: „Sunnan 5-13 og skýjað. Sunnan 10-18, með snörpum vindhviðum og rigning með köflum í kvöld. Hægari um tíma í nótt. Suðvestan 13-25 á morgun með vindhviðum allt að 25 m/s. Skúrir vestantil. Hiti 8 til 14 stig.“ 

Framtíðarspáin gerir ráð fyrir áframhaldandi suðlægum áttum með rigningu víðast hvar en þó þurru austan til. Þar verður hlýjast og bjartast áfram eins og verið hefur undanfarið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir