Ekki hleypt nálægt græjunum í partýunum / JAKOBÍNA

Jakobína og Guðbrandur norðan við Bifröst á Sauðárkróki. AÐSEND MYND
Jakobína og Guðbrandur norðan við Bifröst á Sauðárkróki. AÐSEND MYND

Þau leynast víða hæfileikabúntin og meira að segja á Kambastígnum á Króknum sem er nú ekki stærsti stígur í heimi! Þar hittir Tón-lystin fyrir Jakobínu Ragnhildi Valgarðsdóttur, rétt tæplega þrítuga söngkonu. Hún er alin upp á Sauðárkróki, dóttir Valla Valla og Valdísar Skarphéðinsdóttur.

Jakobínu finnst kontrabassinn vera fallegasta hljóðfærið en sjálf getur hún spilað á píanó og ukulele. Hún segist ekki hafa unnið nein sérstök afrek á tónlistarsviðinu en hún lærði þó klassískan söng í Aachen í Þýskalandi.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Var rétt í þessu að hlusta á Only Time með Enyu.

Uppáhalds tónlistartímabil? Barokktímabilið (1600-1750), jú og svo auðvitað er 80's í miklu uppáhaldi.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ef ég heyri 80' lög í útvarpinu þá hækka ég í botn.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Pabbi hlustaði rosalega mikið á Roy Orbison og The Shadows, mamma var alltaf með einhverja heilunar-tónlist í gangi sem var nú reyndar bara virkilega skemmtileg og falleg.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta platan sem ég keypti mér var The best of Andrea Bocelli með Andrea Bocelli.

Hvaða græjur varstu þá með? Bara venjulegt útvarp.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Time To Say Goodbye með Söruh Brightman og Andrea Bocelli.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Hmmm ekkert sérstakt sem ég man eftir.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Haha, mér yrði ekki hleyptnálægt græjunum.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Einhverja klassíska tónlist....Pachelbel eða Vivaldi.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Færi á tónleika með Rainbow (Ritchie Blackmore) og tæki auðvitað hann Gubba minn með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Eins og ég sagði hérna fyrir ofan, þá fékk ég aldrei að stjórna neinum græjum en vinirnir settu helst á lög með Katy Perry eða Eminem.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Sarah Brightman hafði gífurleg áhrif á mig.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Platan Dive með Söruh Brightman sem kom út árið 1993.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Catch the rainbow / Rainbow
Captain Nemo / Sarah Brightman
Still loving you / Scorpions
Echoes in rain / Enya
Like a prayer / Madonna
Twilight and shadow / Renée Fleming

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir