Hálka eða snjóþekja á vegum
Það var ekki laust við að sjónin sem við blasti þegar litið var út í morgun hafi verið nokkuð ókunnugleg enda hvítt orðið yfir öllu í fyrsta skipti á þessu hausti. Á vef Vegagerðarinnar má sjá að hálka eða snjóþekja er nú á öllum vegum á Norðurlandi og því er vissara fyrir þá sem þurfa að leggja land undir fót að hafa varann á.
Veðurstofan gerir ráð fyrir að á Ströndum og Norðurlandi vestra verði norðan 5-13 m/s og stöku él í dag en 10-15 m/s og snjókoma á við ströndina undir kvöld, einkum austan til. Vægt frost. Dregur úr vindi og úrkomu á morgun. Á sunnudag má búast við vaxandi suðaustanátt á landinu,18-25 m/s og slyddu eða rigningu undir kvöld, en að hægari verði og þurrt á NA- og A-landi. Talsvert frost verður framan af, en hlýnar þegar líður á daginn, fyrst S- og V-til. Hiti 1 til 5 stig þar síðdegis að því er segir á vef Veðurstofunnar, vedur.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.