Langar að sýna konunni hve mikill snillingur Tom Waits er / ÆGIR ÁSBJÖRNS

Ægir á VSOT tónleikum í Bifröst sumarið 2015.  MYND: ÓAB
Ægir á VSOT tónleikum í Bifröst sumarið 2015. MYND: ÓAB

Fjöllistamaðurinn Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson er Króksari, fæddur árið 1963, ólst upp á Hólmagrundinni en býr nú á Suðurgötu 10. Óhætt er að segja að Ægir sé fjöllistamaður af Guðs náð en auk þess að rækta myndlistina leikur hann á gítar, ukulele og hljómborð en einnig er hann liðtækur söngvari.

Helstu tónlistarafrek: Að spila með mörgum af bestu tónlistarmönnum Skagafjarðar.

Uppáhalds tónlistartímabil? Einhverskonar sambland af 1970-1980 tímabilunum og þá var kvikmyndatónlistin í sérstöku uppáhaldi.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Tom Waits, Mugison, Contalgen Funeral og Svavar Knútur m.a.

Á hvers konar tónlist var hlust-að á þínu heimili? James Last, Abba, Ríó Tríó og fullt af klassík eins og Beethoven, Mozart, Schubert, Sibelius ofl.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kassettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Í gjöf fékk ég fyrst “Double Vision” með Foreigner en fyrsta LP platan sem ég keypti sjálfur var “Wish you were here” með Pink Floyd en þeir hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan.

Hvaða græjur varstu þá með? Þá notaðist ég við “Dual Sterio” tæki foreldra minna

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Singing in the rain.

Wham! eða Duran? Wham, þeir héldu lagi.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Geira, Memfismafíuna og Baggalút til að byrja með en svo koma Clapton, Sting, Meatloaf, Queen, U2, Stones, Radiohead, Muse, Pink Floyd, Maggi Eiríks og síðast læði ég Tom Waits á fóninn en þá er ég bara einn eftir, jú og Kalli Lár ef hann var í partíinu.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Kennaralaunin voru að hækka!” – En ef þú meinar lag, þá vildi ég helst heyra Heyr himnasmiður, annaðhvort með karlakórnum Heimi eða Eivøru Páls.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi á Bræðsluna til að hlusta á Tom Waits og ég tæki konuna mína með mér til að sýna henni svart á hvítu hve mikill snillingur hann er. (Draumkennt)

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Þegar ég var 13 ára fékk ég martröð.  Ég var í sunnudagsmessu, málaður eins og Alice Cooper og sat við hliðina á Gubba sem sló á tamborínu.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Alice með Tom Waits.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir