Harmar ákvörðun um lokun starfsstöðvar

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að loka starfsstöð sinni á Sauðárkróki. „Ákvörðun um slíkt er í algjörri andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og á skjön við þá byggðastefnu sem boðuð hefur verið,“ segir í fundargerð byggðaráðs frá því í gær.

Ennfremur hvetur byggðarráð stjórnvöld til að tryggja að forstöðumenn ríkisstofnana gangi í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og standi vörð um opinber störf á landsbyggðinni. Í ljósi þessa hvetur byggðarráð Vinnumálastofnun til að endurskoða ákvörðun sína varðandi lokun starfstöðvarinnar á Sauðárkróki.

Engin áhrif á þjónustu að sögn forstjóra

Lokun starfsstöðvarinnar  á Sauðárkróki er gerð í sparnaðarskyni að sögn forstjóra Vinnumálastofnunar. „Þetta kemur ekki til með að hafa nein áhrif á þjónustu Vinnumálastofnunar á svæðinu,“ segir Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar í samtali við Feyki. Ráðgjafi muni áfram hitta atvinnuleitendur með reglubundnum hætti eins og áður og verður þeim sem verða atvinnulausir og þurfa að sækja um atvinnuleysisbætur gert kleift að gera það alfarið á Netinu. Það fyrirkomulag segir Gissur verða innleitt í starfsemi stofnunarinnar nú fyrir 1. desember nk.

Fleiri fréttir