Heima í stofu í kvöld | Áskell Heiðar í spjalli

Hér má sjá dagskrá tónleikanna, hvar og hvenær hver verður.
Hér má sjá dagskrá tónleikanna, hvar og hvenær hver verður.

Viðburðaséníið Áskell Heiðar Ásgeirsson, sem við Skagfirðingar eignum okkur þó hann sé vissulega fæddur og uppalinn á Borgarfirði eystra, býður okkur „Heim í stofu“ núna í Sæluviku. Hann er vissulega ekki að bjóða okkur heim í sína stofu heldur getum við keypt okkur miða á tónleika sem verða haldnir á sex mismunandi heimilum og stöðum á Sauðárkróki. Nú er þetta að bresta á því Heima í stofu er einmitt í kvöld!

Blaðamaður Feykis hitti á Heiðar nýverið og forvitnaðist um tónleikana en varð fyrst að fá að vita hvað það er með Áskel Heiðar og alla þessa tónlist.

Þarf alltaf að vera tónlist? „Í æsku minni fyrir austan var alltaf mikil tónlist í kringum mig, mamma spilaði á gítar, bræður hennar voru í músik og bræður pabba voru líka hljómsveitatöffarar. Mamma rak lengi veitingasölu í félagsheimilinu okkar á Borgarfirði og hún var dugleg að halda þar viðburði, þaðan kemur sennilega þessi áhugi. Þetta smitast milli kynslóða,“ segir Áskell Heiðar. Systir hans, Aldís Fjóla, er söngkona og söngkennari, Magni bróðir hans á tónlistarskóla, syngur og lifir á tónlist og viðburðaskipulagi og Arngrímur bróðir hans spilar í hljómsveit og hefur sungið í karlakór. „Svo hefur Vala mín áhuga á söng, hefur sungið í kórum og þetta smitast áfram í stelpurnar okkar. Þannig að já, það þarf alltaf að vera tónlist.“

Fyrir 10 árum fór Áskell Heiðar með vinkonu sinni, Emilíönu Torrini, í gegnum vin sinn til Kanada. Þar spilaði Emilíana á heimatónleikum en í Kanada er mikil hefð fyrir þessu formi tónleika. Þar eru einir tónleikar í einu húsi á kvöldi, allir koma með eitthvað með sér og úr verður svokallað pálínuboð. Þú borgar þig ekki inn heldur borgar þú í bauk og allur peningurinn sem safnast í baukinn fer svo til tónlistarmannsins. „Mér fannst þetta strax þá mjög heillandi, að vera inni á heimili með fjölskyldumyndinar uppi á vegg með tónlistarfólki sem hefur aldrei komið þarna inn áður. Allt verður mjög náið og persónulegt, kannski 30-40 manns að hlusta, þannig að ég hef lengi verið skotinn í þessari pælingu,“ segir Áskell Heiðar.“

Hugmyndin á sennilega rætur í Færeyjum

Síðan hefur hann fylgst með þessu tónleikaformi vaxa og dafna í Hafnarfirði, á Akranesi og á Ljósanótt í Keflavík þar sem sama gengið hefur verið að halda utan um þetta á þessum stöðum og er hann að stela þessu í samráði við þá. Það átti svo eftir að koma í ljós að hugmyndin kemur upphaflega til þeirra frá Færeyjum svo þetta er í raun frábær hugmynd sem hefur ferðast manna og landa á milli. „Mig langaði að prufa að koma með þetta inn í Sæluvikuna, fékk þennan fína styrk frá Uppbyggingarsjóði NV og ákvað þess vegna að kýla á þetta og prófa.“

Til að byrja með ákvað Áskell Heiðar að fara ekki langt út fyrir fjölskyldu og vini þegar kom að því að finna tónlistarfólk, enda auðveld í samningaviðræðum og óþarfi að sækja vatnið yfir lækinn. „Þau verða með mér í þessu, Malen mín, Sigvaldi og Magni, höfðinginn okkar hann Geirmundur, Fúsi Ben og Sigurlaug Vordís og vonandi kíkja Eysteinn og Lillý eitthvað til þeirra. Svo kemur æskuvinur minn, hann Jónas Sig, með snillinga með sér. Hann hefur spilað hjá mér á Drangey Music Festival, í Gránu og marg oft á Bræðslunni, það er alltaf gott að hafa Jónas með. Í þetta skiptið verður hann á bílaverkstæðinu hjá Pétri á Áka. Ég hef aldrei séð Jónas á bílaverkstæði áður, það verður skemmtilegt. Annars verða tónleikarnir inni í stofu á þremur heimilum og í einum bílskúr,“ segir Áskell Heiðar.

Þegar blaðamaður spurði hvort vel hefði gengið að fá fólk til að bjóða heim gekk það vonum framar. Það kom Áskeli Heiðari á óvart hvað fólk tók vel í þetta því vissulega er það svolítið út fyrir boxið að opna heimili sitt fyrir ókunnugu fólki og bjóða heim. Áskell Heiðar leggur upp með að tónlistarfólkið flytji sína eigin tónlist, þá verður til innilegt samband milli áheyranda og tónlistamanns sem flytur í návígi sína tónlist nánast í augnsambandi við áheyrendur heima í stofu.

Upplagt tónleikarölt fyrir vinahópinn eða saumaklúbbinn

Planið er svo að þeir sem kaupa aðgöngumiða, sem gildir í öll heimahúsin, bílskúrinn og á bílaverkstæðið, geti svo endað í sameiginlegu partýi þar sem allir listamennirnir koma saman. Því verður hlaðið í gleðskap fram eftir nóttu á Kaffi Krók í kvöld að öllu heimastússi loknu. Einhverjum kann að finnast skrítið að tónleikarnir séu á þriðjudegi en 1. maí er daginn eftir svo allir ættu að geta hvílt sig í boði verkalýðshreyfingarinnar daginn eftir.

Takmarkað magn miða er í boði. Heimilin verða opin öllum sem eiga miða en benda má á að þessi viðburður er skólabókadæmi um viðburð sem er fullkominn fyrir vinahópinn eða klúbbinn að skella sér á tónleikarölt á Sauðárkróki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir