Gleðibankinn er sannarlegur ógleðibanki / BJÖRN LÍNDAL

Björn Líndal í hlutverki Nikkuskelfis.
Björn Líndal í hlutverki Nikkuskelfis.

Tónlistarmaður er nefndur Björn Líndal Traustason (1962) og býr við Hlíðarveg á Hvammstanga. Hann er Húnvetningur í húð og hár, sonur Trausta og Lilju á Laugarbakka í Miðfirði og er framkvæmdastjóri SSNV. Björn hefur komið við í nokkrum hljómsveitum, þar á meðal Lexíu frá Hvammstanga, en hann spilar á allnokkur hljóðfæri þó gítarinn hafi alltaf heillað mest. Hann segist þó alveg laus við að hafa unnið einhver tónlistarafrek en bætir við... „– Það var samt ákveðið afrek að starfa sem tónlistarkennari um tíma, en ég hélt það ekki lengi út.“

Hvaða lag varstu að hlusta á? Hef nú síðustu daga, ekki sýst eftir andlát Leonard Choen, hlustað á Hallelujah með acapellahópnum Pentatronix. Þar koma íslensku hátalarnir frá Dimension of sound verulega vel út. Flottir hátalarar frá Skagaströnd.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég hef alltaf verið heillaður af tímabilinu frá 1960 – 68 eða þar um bil, enda Bítlarnir í miklu uppáhaldi hjá mér og svo auðvitað gullaldarár jazzins.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Finnst gaman að heyra ný lög eins og t.d. Fröken Reykjavík með Friðrik Dór og AAA með Arnari Frey (Úlfur Úlfur) annars er maður á þeim aldri að „gamalt er betra“.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Harmonikkan var allsráðandi á mínu æskuheimili enda eru mínar fyrstu minningar tengdar því þegar faðir minn var að spila á nikkuna.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasett-an/niðurhalið sem þú keyptir þér? Húnvetningurinn Grettir Björnsson og þessi plata var keypt í verslun Sigurðar Pálmasonar á Hvammastanga 1972.

Hvaða græjur varstu þá með? Græjur heimilisins voru risastór stofumubbla, sjálfsagt um rúmmetri að stærð, og það var alveg hægt að búa til töluverðan hávaða.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Sumar á Sýrlandi var eiginlega fyrsta íslenska platan sem ég komst yfir og var á pari við þokkalega góðar erlendar plötur, mjög eftirminnilegt, en það var einnig platan Ísbjarnarblús fyrsta plata Bubba, ekki síst lagið Þorskacharliston þar sem þeir fara á kostum, Bubbi og Guðmundur Ingólfsson heitinn. 

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Gleðibankinn er fyrir mér sannarlegur ógleðibanki

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Íslensku júróvisjónlögin sem komust ekki áfram innanlands eru mörg hver mjög góð t.d. lagið  Þér við hlið með Regínu Ósk.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Le Freak með Chic - en það eru meiri líkur að það frjósi í helvíti en að ég haldi party.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ástralski gítarsnillingurinn Tommy Emmanuel er í miklu uppáhaldi jafnt sunnudaga sem aðra daga. 

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég mundi líklega fara í þriðja skiptið á tónleika með títtnefndum Tommy Emmanuel og  tæki frúna með, en ekki hvað?

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? AC/DC – Highway to Hell.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Fyrir utan föður minn og þá tónlist sem hann færði mér forðum með nikkunni er Guðmundur Ingólfsson píanósnillingur sá tónlistarmaður sem hefur haft mest áhrif á mig og auðviðtað meistarinn George Harrison en það eru samt ansi margvísleg áhrif sem maður tekur inn á rúmlega 50 árum. 

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Gling gló plata Guðmundar Ingólfssonar og Bjarkar er í miklu uppáhaldi hjá mér og þegar útlendingar spyrja mig um hvaða plötu þeir ættu að kaupa til minningar um Íslandsdvölina mæli ég alltaf með þessari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir