Helgi Seljan nýr rannsóknarritstjóri Stundarinnar

Fréttamaðurinn og rannsóknarblaðamaðurinn Helgi Seljan hefur gengið til liðs við Stundina. Helgi hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín hérlendis og erlendis, meðal annars þrenn blaðamannaverðlaun Íslands og 9 tilnefningar til sömu verðlauna. Helgi hefur oftast allra, eða fjórum sinnum, verið valinn sjónvarpsmaður ársins á Edduverðlaunahátíð íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar.

Feril sinn í fjölmiðlum hóf Helgi á héraðsfréttablaðinu Austurglugganum árið 2002 en fór þaðan á DV, Talstöðina og svo fréttastofu Stöðvar 2, áður en hann gekk til liðs við Kastljós RÚV árið 2006, þar sem hann starfaði allt þar til fréttaskýringaþátturinn Kveikur varð til árið 2017.

Helgi er trúlofaður Katrínu Rut Bessadóttur, félagsfræðingi og verkefnastjóra í Háskólanum í Reykjavík. Þau eiga þrjú börn á aldrinum 2-14 ára. Áður en Helgi hóf störf við blaðamennsku starfaði hann við sjómennsku og netagerð.

Verðlaunaður fyrir fjölda umfjallana

Helgi hefur tekið þátt í og leitt rannsóknir og umfjallanir um nokkur af stærstu fréttamálum síðustu ára, meðal annarra um Panamaskjölin og Samherjaskjölin í samvinnu við Stundina.

Helgi hefur meðal annars hlotið verðlaun fyrir umfjöllun sína um Samherjaskjölin, samkeppnislagabrot Mjólkursamsölunnar, áratugalanga brotasögu kynferðisbrotamanns og þöggun trúfélaga og stofnana um þau. Svo og fyrir umfjöllun um bókhaldsbrellur og skattasniðgöngu stóriðjufyrirtækja á Íslandi, lögbrot, aðgerðarleysi eftirlitsstofnana í sjávarútvegi, mannréttindabrot gegn geðsjúkum í íslenskum fangelsum, brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði og eins umfjöllun um ólöglega förgun tveggja fyrrum flaggskipa Eimskipa á Indlandi.

Ásamt því að starfa að áframhaldandi umfjöllunum í miðlum Stundarinnar mun Helgi gegna hlutverki rannsóknarritstjóra Stundarinnar. Það hlutverk hefur ekki verið til staðar fram að þessu, en þekkist á rannsóknarfréttamiðlum erlendis undir titlinum investigations editor. Hann hefur störf á Stundinni 15. febrúar næstkomandi.

Aðrar breytingar á ritstjórn

Samhliða breytingunum stígur Jón Trausti Reynisson úr stóli ritstjóra og verður eingöngu framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Stundarinnar og blaðamaður á ritstjórn Stundarinnar. Frá stofnun Stundarinnar í janúar 2015 hafa ritstjórar verið tveir, en Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir verður framvegis ein aðalritstjóri.

Meðal annarra blaðamanna á Stundinni eru Aðalsteinn Kjartansson, Alma Mjöll Ólafsdóttir, Freyr Rögnvaldsson, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Margrét Marteinsdóttir.

Útgáfufélagið Stundin ehf. er í dreifðu eignarhaldi með ákvæðum um valddreifingu hluthafa innbundna í samþykktum félagsins og ræður enginn einn eigandi yfir meira en 12% eignarhlut.

Markmið og hlutverk Stundarinnar er að vera öruggur og áreiðanlegur vettvangur fyrir gagnrýna og óháða rannsóknarblaðamennsku á Íslandi. Um 85% af rekstrartekjum Stundarinnar koma beint frá almenningi í gegnum áskriftir eða styrki lesenda og hefur Stundin í heild haldist í sjálfbærum rekstri frá og með árinu 2016. Fjárhagslegt sjálfstæði fjölmiðilsins er á endanum metið sem forsenda fyrir sjálfstæði ritstjórnar, á tímum þar sem íslenskir fréttamiðlar eru almennt reknir í miklu og stöðugu tapi með framlögum frá fjársterkum aðilum, stundum beinum hagsmunaaðilum.

Stundin birtir umfjallanir óháð formi. Hún kemur út í prentaðri útgáfu á landsvísu sem dreift er til áskrifenda og fæst í lausasölu í flestum matvöruverslunum. Allt efni Stundarinnar er birt á vefnum  Stundin.is og er hluti þess opinn fyrir öllum, en að fullu opið áskrifendum.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir