Hellusöðlar: Þarfaþing og listagripir - Fróðleikur frá Byggðasafni Skagfirðinga

Hellusöðull (BSk-2013:200) úr furu, eltiskinni og látúni (með koparnöglum). Söðullinn situr á fagurlega útskornum tréstól. Brík og sveif eru lagðar drifnu og gröfnu látúni. Beitur hylja allar brúnir. Í látúnið er grafið blómamynstur og dýramyndir (t.d. ljón, hjörtur, hundur, björn, einhyrningur og fíll) í barokkstíl. Skammstöfunin TH Id eða TH Jd og ártalið 1766 er einnig grafin á vinstri hlið og á báðum hliðum er engill. Skinnið í setunni er þrykkt með nokkurs konar krossamynstri. Söðullinn var í eigu Þórunnar Kristjönu Hafstein (1922-1995). Faðir Þórunnar var Júlíus Havsteen (1886-1960) sýslumaður á Húsavík. Söðullinn var sennilega fjölskyldugripur þar til hann var seldur. Sigríður Sigurðardóttir gaf hann Byggðasafni Skagfirðinga þann 13. júlí 2013.
Hellusöðull (BSk-2013:200) úr furu, eltiskinni og látúni (með koparnöglum). Söðullinn situr á fagurlega útskornum tréstól. Brík og sveif eru lagðar drifnu og gröfnu látúni. Beitur hylja allar brúnir. Í látúnið er grafið blómamynstur og dýramyndir (t.d. ljón, hjörtur, hundur, björn, einhyrningur og fíll) í barokkstíl. Skammstöfunin TH Id eða TH Jd og ártalið 1766 er einnig grafin á vinstri hlið og á báðum hliðum er engill. Skinnið í setunni er þrykkt með nokkurs konar krossamynstri. Söðullinn var í eigu Þórunnar Kristjönu Hafstein (1922-1995). Faðir Þórunnar var Júlíus Havsteen (1886-1960) sýslumaður á Húsavík. Söðullinn var sennilega fjölskyldugripur þar til hann var seldur. Sigríður Sigurðardóttir gaf hann Byggðasafni Skagfirðinga þann 13. júlí 2013.

Ýmsar tískubylgjur hafa fylgt manninum í gegnum aldirnar, í fatnaði, húsbyggingum og ekki síst útbúnaði til reiðmennsku. Í pistlinum að þessu sinni verður fjallað stuttlega um söðla, sér í lagi svokallaða hellusöðla. 

Upplýsingar sem hægt er að lesa úr fornleifauppgröftum og öðrum heimildum benda til að söðlar heiðinna manna hafi almennt ekki verið mjög íburðarmiklir. Söðulgerðin tók þó breytingum og listaverk frá miðöldum sýna djúpa og skreytta söðla, standsöðla, sem var ríkjandi gerð hérlendis fram yfir 1600. Standsöðlar einkenndust af háum bríkum í bak og fyrir. Þeir voru ýmist steindir (málaðir), smeltir (skreyttir glerjuðum eirskjöldum eða málmskrauti) eða gylltir (látúnsbúnir). Gylltir söðlar voru síðar kallaðir látúns- eða hellusöðlar. Á 17. öld breyttust standsöðlar karla þannig að bríkurnar lækkuðu og kallaðist afbrigðið bryggjusöðull, og þá var einnig farið að tala um hnakka.[1]

Heldri konur riðu í sveifarsöðlum, en á þeim var breið baksveif milli hárra bríka og fjöl til að tylla báðum fótum á. Sveifarsöðullinn var einskonar stóll sem sneri út á hlið svo konan sneri þvert á reiðstefnuna. Hún þurfti því að halda um tauminn með annarri hendi og hafði litla stjórn á hestinum.

Eitt íburðarmesta afbrigði sveifarsöðlanna gömlu voru fyrrnefndir hellusöðlar og voru þeir klæddir látúnsverki. Látúnsplötur söðlanna voru ýmist drifnar eða grafnar (skornar), en slíkt var vandaverk og ber vott um fagurfræði listamannsins og mikla handlagni. Drifsmíði var þannig að teiknað var á málmplötu og hún svo slegin upp frá bakhlið eða að myndefnið var skorið í tré og málmplötur svo slegnar niður í skurðinn. Grafið eða skorið mynstur var gert með al sem er stuttur prjónn með haldi.[2] Mynstur og myndefni gat verið alls kyns blómaflúr og fagrir sveigar, dýra- og kynjamyndir og áletranir.

Á 19. öld bárust nýjir straumar til landsins og nýjar gerðir söðla- og hnakka ruddu gömlum gerðum úr sessi. Söðulsveifin lækkaði og mjókkaði og kallaðist þá söðulbogi og bríkurnar hurfu. Um miðbik aldarinnar hófu jafnframt klakkasöðlar innreið sína, en þá var klakkur (tangi) við söðulnef, sem hægt var að hvíla annan fótinn á. Þá gátu konur snúið sér í reiðstefnu og náð betra taumhaldi á reiðskjóta sínum.[3] 

Í sumar verður Hellusöðull þessi (sjá meðfylgjandi mynd) til sýnis á Sögusetri íslenska hestsins á Hólum í Hjaltadal, ásamt fleiri fallegum safnmunum frá Byggðasafni Skagfirðinga og Þjóðminjasafni Íslands, s.s. reiðaskjöldum, beislum og beislisskrauti. Við hvetjum Skagfirðinga og nærsveitamenn til að gera sér ferð í Hóla og kynnast reiðtygjum liðinna alda betur.

Áður birst í 25. tbl. Feykis 2019.

[1] Sigríður Sigurðardóttir. „Reiðver og akfæri: Samgöngur á landi fyrir vélvæðingu“. Hlutavelta tímans: Menningararfur á Þjóðminjasafni. (2004). Ritstj. Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir. Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík. Bls. 112.

[2] Sigríður Sigurðardóttir. „Reiðtygjaprýði“. Prýðileg reiðtygi. (2018). Ritstj. Anna Lísa Rúnarsdóttir. Rit Þjóðminjasafns Íslands 49, Reykjavík. Bls. 8-9.

[3] Sama heimild. Bls. 112-113.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir