Hvað kostar mannslíf? | Högni Elfar Gylfason skrifar
Nú er það svo að undirritaður hefur áður tjáð sig um reiðvegamál í Skagafirði og þá einna helst skort á reiðvegum þar sem þörfin er mest. Ekki er hægt að halda því fram að ekkert hafi verið gert, en þó virðist svo vera að ekki sé skoðað hversu mikil þörfin er á hverju svæði fyrir sig. Að því sögðu er líklega ekkert óeðlilegt við það að ár eftir ár sé lítið gert þar sem mikil umferð hesta og rekstra fer um.
Eins og sumir vita er undir-ritaður lítill hestamaður í sér og er í besta falli með fallega hestanælu í barminum fremur en að ríða út sér til ánægju, yndisauka eða í atvinnuskyni. Þannig er sjónarhornið annað en hestamanna og snýr þá meira að sambýlinu við vegfarendur á bílum og öðrum tækjum ásamt og ekki síður öryggi allra aðila málsins. Þannig hef ég verið mikill talsmaður þess að bæta vegi í héraðinu og þá ekki síður reiðvegi. Nú vita flestir að úr takmörkuðum fjármunum er að moða í þennan málaflokk og jafnvel svo að nú þegar ráðherra samgöngumála ásamt félögum hans í ríkisstjórninni guma af 3 milljarða aukainnspýtingu á þessu ári í viðhald vega, þá berast fréttir af því að hagræðingar-/sparnaðarkrafa upp á 15% eða meira sé á viðhald malarvega í Skagafirði. Líklega geta Skagfirðingar hrósað happi yfir því að ekki voru settir meiri aukafjármunir í viðhald vega ef vænta mætti að sparnaðarkrafan hefði aukist til jafns.
Þá að tilefni þessa pistils og vangaveltna. Fyrir skemmstu varð alvarlegt slys hér í firð-inum þar sem litlu hefur mátt muna að úr yrði banaslys. Leitar þá á hugann hvort mögulega hefði mátt komast hjá slysinu ef reiðvegur hefði verið meðfram akveginum á svæðinu. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um það, en þó er hægt að segja að þetta er ekki eina dæmið sem erfiðlega gengur að samræma veru bíla, reiðmanna og hrossarekstra á mjóum malarvegum héraðsins þar sem ekki eru reiðvegir samsíða.
Undirritaður skorar hér með á sveitarstjórn Skaga-fjarðar að beita sér fyrir úrbótum í þessum málum.Þar væri góð byrjun að setja í gang skoðun á því hvar mesta þörfin er á nýjum reiðvegum ef tekið er mið af umferð hestamanna, bíla og aðstæðna í samráði við hestamenn og heimamenn á nærsvæðum.Þá væri gustuka-verk fyrir fulltrúa íbúa í sveitarstjórn að beita sér fyrir auknum fjármunum frá ríkinu í málaflokkinn með áherslu á öryggismál vegfarenda.
Það er góður bragur á því að sveitarstjórnir beri öryggi íbúanna fyrir brjósti og geri sitt besta til að koma góðum málum sem þessum til leiðar.
Hvað kostar mannslíf?
Högni Elfar Gylfason
Höfundur er bóndi í Skagafirði og varaþingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.