Hólmar Daði með einstaka þrennu í sigri á Afriku

Hólmar Daði fullkomnar þrennuna einstöku af vítapunktinum. MYND: ÓAB
Hólmar Daði fullkomnar þrennuna einstöku af vítapunktinum. MYND: ÓAB

Á sama tíma og landslið Íslands spretti úr spori í Manchester á Englandi í Evrópukeppni kvenna þá spilaði lið Tindastóls við Afríku í 4. deildinni hér heima. Reiknað var með auðveldum sigri Stólanna enda gestirnir gjafmildir í meira lagi þegar kemur að varnarleik og höfðu fengið á sig tíu mörk að meðaltali í þeim átta leikjum sem liðið hafði spilað. Meðaltalið breyttist ekkert í dag því Stólarnir gerðu tíu mörk en gestirnir náðu inn einu marki.

Aðeins þrír leikir voru spilaðir á Íslandsmótunum í meistaraflokki í dag og það verður að teljast stórundarlegt að setja tvo þeirra á dagskrá á sama tíma og landslið Íslands spilar leik á stórmóti. Enda voru það ekki margir stuðningsmenn sem lögðu leið sína á völlinn í dag þrátt fyrir fádæma blíðu. Þetta má segja að þetta teljist hálfgerð óvirðing við leikmenn.

Það tók Stólana aðeins sex mínútur að ná forystunni og það var Addi sem gerði það eftir ágæta sókn. Sigurður Pétur gerði annað markið á 19. mínútu og þar með fyrsta mark sitt með meistaraflokki í 60 leikjum. Benni Gröndal gerði þriðja markið á 35. mínútu og Jón Gísli, bróðir Sigga, gerði fjórða markið á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Staðan 4-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn verður Hólmari Daða Skúlasyni sennilega minnisstæður og gott ef kappinn hefur ekki skráð sig í sögubækurnar með einstakri þrennu – frekar ólíklegt að önnur eins þrenna hafi veirð gerð þó margt hafi gerst í boltanum. Flottast þykir að gera þrennu með hægri fæti, vinstri og skalla en kappinn yfirtrompaði það rækilega. Hann gerði reyndar öll mörkin með vinstri; fyrsta markið beint úr hornspyrnu, annað beint úr aukaspyrnu og það þriðja (beint) úr vítaspyrnu!

Hann gerði fimmta mark Tindastóls á 49. mínútu, sjötta á 60. mínútu, þá gerði Emil Óli sjöunda mark Stólanna á 64. mínútu og Hólmar fullkomnaði þrennuna á 74. mínútu úr víti eftir að Ísak nældi í víti. Ísak gerði síðan laglegt mark á 80. mínútu en á 91. mínútu gerði Milovan Barac gullfallegt mark fyrir gestina. Emil Óli gerði síðan tíunda mark Tindastóls á 94. mínútu og meira var ekki skorað.

Kannski var það jákvætt fyrir lið Afríku að í lið Tindastóls vantaði þrjá helstu markaskorara liðsins í sumar en Basi, Jónas og Jóhann Daði voru allir fjarri góðu gamni. Með sigrinum komst Tindastóll að nýju í efsta sæti B riðils 4. deildar, er með 20 stig líkt og lið KFK sem á þá leik inni.

Áhorfendur vildu koma því á framfæri að mikið var um bræður í liði Tindastóls í dag. Leikinn byrjuðu þrjú bræðrasett; Anton og Oskar Örth, Addi og Ísak og Siggi og Jón Gísli Stefánssynir. Bragi Skúla kom inn á í síðari hálfleik og þá var Hólmar bróðir hans í miðju þrennuverkefni. Þá má reyndar nefna líka að Konni fyrirliði er bróðir Donna þjálfara og Eysteinn Guðbrands, sem kom inn á á 74. mínútu er sonur Gubba sem var í stúkunni... en það er auðvitað allt önnur Ella.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir