Hugleiðingar um sameiningu sveitarfélaga :: Áskorandinn Jón Árni Magnússon, bóndi í Steinnesi og sveitarstjórnarmaður í Húnavatnshreppi

Að mörgu er að hyggja þegar að sameina á sveitarfélög til að þau standi sterkari saman. Oft hefur það reynst erfitt fyrir íbúana að sætta sig við breytingar og í mörgum tilfellum skiptist fólk upp í hópa líkt og var fyrir sameiningu. Það þýðir ekki að sitja fastur í fortíðinni heldur að taka þessu með opnum huga og hugsa dæmið upp á nýtt.

Þegar sameina á sveitarfélög þá snýst það um nýtt upphaf, nýtt samfélag og jafnvel nýtt nafn. Þessa dagana eru sveitarstjórnir Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar að ganga frá samningi um sameiningu og verður kosið í febrúar.

Mín orð til þeirra sem að fjalla um þessi mál er að hafa það hugfast að Húnavatnshreppur og Blönduósbær eru að sameinast í nýtt sveitarfélag með nýtt upphaf, hvorugt þeirra er að ganga inn í hitt heldur eru þau að fara að ganga veg framtíðarinnar saman.

Ef nýtt sveitarfélag verður stofnað þá vona ég innilega að fólk hætti þessum „við og hinir“ hugsunarhætti, sá hugsunarháttur er löngu úreltur. Sameinað sveitarfélag snýst um samfélagið sem heild, við stöndum miklu sterkari saman til að byggja upp innviði sveitarfélagsins og þegar berjast á fyrir hagsmunum svæðisins út á við. Við ættum að tileinka okkur þann sið að tala um okkur sem heild, því annars munum við aldrei ná árangri sem nýtt sveitarfélag. Að þræta innbyrðis hefur sjaldan skilað árangri því hver tekur mark á sveitarfélagi sem ekki stendur saman þegar á reynir.

Að því sögðu þá hefði ég vilja sjá mun víðtækari samstöðu hjá sveitarfélögunum á Norðurlandi vestra til að berjast fyrir bættum kjörum íbúanna, bættum vegasamgöngum, innviðauppbyggingu og auknum tækifærum fyrir svæðið í heild. Okkar landshluti hefur orðið verulega útundan síðastliðin ár og má hugsanlega rekja það til takmarkaðrar samstöðu innan svæðisins. Sameining er skref í þá átt að þjappa okkur saman og byggja upp til framtíðar, styrkurinn felst í samstöðunni, styrkurinn felst í okkur.

Ég skora á Ólaf Magnússon Sveinsstöðum að taka við pennanum.

Áður birst í 48. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir