Hummus og nautagúllas

Matgæðingarnir Sigurður og Olivia Weaving. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Sigurður og Olivia Weaving. Aðsend mynd.

Matgæðingar í 36. tölublaði ársins 2018 voru þau Olivia Weaving og Sigurður Kjartansson, kúabændur, búa á Hlaðhamri í vestanverðum Hrútafirði ásamt dætrunum Sigurbjörgu Emily og Maríu Björgu.

Olivia, sem flutti til Reykjavíkur frá Englandi í janúar árið 2001 og norður á Hlaðhamar fyrir jólin sama ár, sagðist ekki hafa borðað kjöt á sínum yngri árum, bara fisk. „En í dag elda ég kjöt nokkrum sinnum í viku. Ég er hérna með eina uppskrift frá því gamla daga frá systur minni og eina sem ég bjó til eftir að ég kom til Íslands.“

RÉTTUR 1
Hummus - kjúklingabauna ídýfa

1 dós kjúklingabaunir
½ tsk hvítlauksduft
1 msk. tahini (sesamfræjamauk)
3 msk. ólífuolía
2 msk. sítrónusafi
salt og pipar eftir smekk

Aðferð:
Setjið allt hráefnið í blandara og blandið því vel saman. Bætið við meiri hvítlauk, salti og pipar eftir smekk. Ef notað er vatn af kjúklingabaununum er hummusinn þynnri.
Hummus er mjög góður á samlokur, með salati eða sem ídýfa með brauði eða kexi og hráu grænmeti. Einfalt og fljótlegt að búa til fyrir óvænta gesti.


„Sem nautgriparæktandi hef ég mikla þörf fyrir nautakjötsuppskriftir. Þessi er ein af mínum uppáhalds, ekki fljótleg en mjög einföld. Ég á sjaldan afgang af þessum rétti.“

RÉTTUR 2
Nautagúllas

um 800 g nautagúllas 
2 dósir tómatar
½-1 dós vatn
¼ bolli súpujurtir
⅓ bolli rauðar linsubaunir
1 grænmetisteningur

Aðferð:
Setjið saman í stóran pott og sjóðið á lágum hita þar til nautakjötið er mjúkt, um 3 klst. ef kjötið er frosið.

1-2 msk tómatpúrra
sósujafnari
salt og pipar eftir smekk.

Bætið við tómatpúrru eða sósujafnara til að gera sósuna þykkari. Kryddið með salti og pipar eftir smekk. 
Berið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús, salati og nýbökuðu brauði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir