Húnaþing vestra auglýsir breytingu á aðalskipulagi
Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014-2026. Um er að ræða breytta veglínu við bæinn Tjörn á Vatnsnesi.
Í auglýsingu á vef Húnaþings vestra segir: „Breytingin fjallar um breytta veglínu á um 700 metra kafla við bæinn Tjörn á Vatnsnesi, en í heildina er vegaframkvæmdin 1,8 km og að hluta til í sama vegstæði. Vegagerðin felur í sér nýtt brúarstæði yfir Tjarnará þar sem tekin er af hættuleg beygja yfir ána, ásamt nýjum efnistökusvæðum.“
Í greinagerð með tillögunni segir að umferð um Vatnsnes hafi aukist verulega síðustu árin með auknum fjölda ferðamanna sem leggi leið um nesið til náttúruskoðunar og útivistar. Þannig hafi sumardagsumferð aukist úr 1953 bílum árið 2007 í 2616 bíla árið 2016.
Tillagan verður til sýnis í ráðhúsi Húnaþings vestra til þriðjudagsins 5. júní 2018 og hjá Skipulagsstofnun, Laugarvegi 166, Reykjavík.
Telji einhverjir sig eiga hagsmuna að gæta gefst þeim kostur á að gera athugasemdir við breytingartillöguna til þriðjudagsins 5. júní 2018. Athugasemdir þurfa að vera skriflegar og skal þeim skilað til skrifstofu Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga eða á netfangið skrifstofa@hunathing.is.
Með tillögunni fylgja uppdráttur og greinagerð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.