Húnaþing vestra auglýsir tillögu um verndarsvæði í byggð á Botrðeyrartanga

Borðeyrartangi. Mynd: FE
Borðeyrartangi. Mynd: FE

Eins og áður hefur komið fram á Feyki.is  hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkt að leggja tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verndarsvæði í byggð innan Borðeyrar í Hrútafirði. Þannig vill Húnaþing vestra staðfesta menningarsögulegt gildi verslunarstaðarins á Borðeyri. Svæðið sem um ræðir er 14.771 m2 á stærð eða tæplega 1,5 hektarar og stendur á landspildu sem kallast Borðeyrartangi og gekk undirviðurnefninu Plássið.

„Mörk þessa svæðis ná frá læk sem fellur úr grónum gilskorningi sem kallast Lækjardalur að vestanverðu og meðfram sjólínunni á suðurhlið tangans frá þeim stað sem lækurinn fellur í víkina allt fram á eyraroddann í austri. Þaðan liggja mörkin meðfram sjóvarnargarði til norðvesturs þar til náð er beinni sjónlínu við brattan malarkamb rétt norðan við norðurgafl gamla sláturhússins. Þaðan ná mörkin í hallandi línu meðfram kambnum til vesturs að læknum. Markmið þess að gera hluta Borðeyrar að sérstöku verndarsvæði er að viðhalda og styrkja byggð á Borðeyri með þeim hætti að söguleg arfleifð kaupstaðarins fái notið sín og gildi hennar undirstrikað gagnvart heimamönnum jafnt sem aðkomufólki en þó ekki síst gagnvart komandi kynslóðum.

Til grundvallar tillögunni er fornleifaskráning fyrir Borðeyri frá 2008 og húsakönnun á Borðeyri frá 2017 ásamt ítarlegri umfjöllun um sögu Borðeyrar sem unnin var af dr. Vilhelm Vilhelmssyni sagnfræðingi vegna tillögunnar. Einnig er byggt á greiningu á svipmóti byggðarinnar í sögu og samtíð. Ítarlegri rökstuðningur með tillögu um verndarsvæði á Borðeyri ásamt fyrrnefndi umfjöllun um sögu byggðarinnar og greining á heildarsvipmóti er að finna í greinargerð sem fylgir tillögunni,“ segir á vef Húnaþings vestra.

Tillagan liggur frammi til og með 8. maí 2018 í Ráðhúsi Húnaþings vestra. Tillöguna ásamt greinagerð má einnig nálgast hér.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta svo og öðrum þeim sem koma vilja sjónarmiðum á framfæri er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Skulu þær vera skriflegar og skilað til skrifstofu Húnaþings vestra eða á netfangið skrifstofa@hunathing.is.

 

Tengd frétt „Plássið" á Borðeyri verði verndarsvæði í byggð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir