„Dót hrundi úr hillum“ / HARALDUR ÆGIR

Halli á bassanum.  MYND: MARKUS LACKINGER
Halli á bassanum. MYND: MARKUS LACKINGER

Það er Haraldur Ægir Guðmundsson, fæddur 1977 á Blönduósi, sem svarar fyrir sig í Tón-lystinni að þessu sinni. Foreldrar hans eru Erla Björg Evensen og Guðmundur Haraldsson og segist Halli hafa alist upp í músíklausri fjölskyldu. „Mamma spilaði aðeins á gítar þegar hún var unglingur og pabbi var allur í íþróttum. Ég held að ég hafi leiðst út í tónlistina vegna þessa að ég fann mig ekki í neinu sporti og leitaði því nýrra áhugamála. Ég byrjaði að spila á rafmagnsbassa þegar ég var 14 eða 15 ára og breytti svo um árið 2003 og fór að spila á kontrabassa sem ég geri nær eingöngu í dag.

Helstu tónlistarafrek? -Í mínum huga standa nokkur atriði uppúr. Að spila í fyrsta skipti í Reykjavík með BCLB á Púlsinum á Laugavegi ‘95, spila með Groundfloor á okkar fyrstu tónlikum á Ítalíu 2009 og kveðjutónleikarnir mínir á Jazzit í Salzburg 2013 en þar spiluðu með mér tveir af fremstu jazztónlistarmönnum Austurríkis.

Uppáhalds tónlistartímabil? -Jazz frá 1955 til 1970, breska grindcore senan upp úr 1980 og einnig finnst mér margt mjög skemmtilegt að gerast í nútímanum.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Jazz, nýtt reggea, margt hip/hop finnst mér cool, indie... allskonar stöff sem vel er gert.

Hvaða var hlustað á á þínu heimili? -Ég man nú ekki eftir að við höfum hlustað mikið á tónlist heima á Blönduósi, en ef eitthvað þá voru það Boney M fyrir jólin, Halli og Laddi og Ómar Ragnarsson. Síðan þegar ég fór sjálfur að búa þá þróaðist þetta út í Metallica, Radiohead, Obituary, og fleira heavy stöff.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Við félagarnir klipptum saman mix spólur úr útvarpinu og reyndum að kaupa eftir því sem við uppgötvuðum þar. Ætli fyrsta platan hafi ekki verið Beneath the Remains með Sepultura eða Human með Death eða eitthvað annað deathmetal. Við vorum grimmir í að panta spennandi plötur frá Tónspil á Neskaupstað sem hafði alveg frábært úrval af efni á lager.

Hvaða græjur varstu þá með? -Ég byrjaði að spila á frábæran viðarlitaðan Yamaha BB2000 bassa, þrumandi flott sound, í gegnum Fender Bassman 300watta skrýmslamagnara. Foreldrar mínir hafa oft minnst þess að koma gangandi heim og heyra í mér í gegnum hverfið, spilandi nýjustu riffin, og hávaðinn var svo mikill að dót hrundi úr hillum.

Hver var fyrsta platan sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? -Ég man ennþá tilfinninguna þegar ég heyrði fyrst Appetite for Destruction með Guns´n´Roses í gegnum lokaða svefnherbergishurðina hjá systur minni. Þar voru hún og vinkona hennar að hlusta á heitasta stöffið og ég hafði aldrei heyrt gítar með overdrive effect áður – varð alveg hugfanginn af soundinu.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? -Ég held ég verði að segja allir kynnarnir á FM957.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? -Mér fannst Euphoria frábært, eins fannst mér Rise Like a Phoenix ógeðslega flott lag, með eða án skeggs, bara lagið got me going.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -AmAbAdAmA og eitthvað funky með John Scofield eða nýju plötuna mína með Freaks Of Funk – það er algjör eðall í partýið!

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Þá set ég á Charlie Haden/Pat Metheny - Beyond Missouri Sky eða eitthvað soft Chet Baker stöff.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Ég færi með Halldóru Björgu dóttur minni á Adele tónleika í Japan.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? -Ég sjálfur. Mig dreymdi lengi um að semja, framleiða og gefa út mína eigin tónlist og geta ferðast til þess að flytja efnið mitt fyrir ókunnuga. Nú hef ég náð því að vissu leyti og nýt þess mjög.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Þessari spurningu er erfitt eða jafnvel ómögulegt að svara, stílarnir eru svo margir og ólíkir sem ég fíla. Scum með Napalm Death, margar John Coltrane koma til greina, þá helst A Love Supreme og Sun Ship, Kid A með Radiohead og endalaust margar fleiri.

Vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? 
All About the Bass í jazz útgáfunni
Idioteque - Radiohead
Eldorado - Amabadama,
Daydreamer - Adele
og einhver óþekkt jazz lög.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir